132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér mjög skiljanlegt að hæstv. menntamálaráðherra vilji gefa umræðunni það yfirbragð að hana hafi einkennt jákvæður samhljómur, þannig held ég að hæstv. ráðherra hafi orðað það. (Menntmrh.: Reynt að greina.) Að því leyti sem allir er tekið hafa þátt í umræðunni segjast hafa göfug markmið að leiðarljósi þá er að sönnu samhljómur. Hins vegar erum við að ræða frumvarp um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem mjög mikil óeining ríkir um og breytingartillögur ríkisstjórnarinnar eru mjög harðlega gagnrýndar.

Hæstv. menntamálaráðherra segir að allt skipulagsfyrirkomulag Ríkisútvarpsins sé niðurnjörvað, mikilvægt sé að losa um það. Þá skulum við gera það, menn eru sammála um að gera það. Þetta er hægt að gera hjá ríkisstofnuninni auðveldlega og við höfum sett fram tillögu um hvernig það megi gera.

Það sem lagt er til í frumvarpinu er að allt mannahald, allur rekstur stofnunarinnar verði færður á ábyrgð eins aðila, framkvæmdastjórans, útvarpsstjórans. Sá aðili, útvarpsstjórinn, er síðan settur undir pólitískan járnhæl. Meiri hlutinn á Alþingi ræður þennan mann eða rekur þennan mann. Ég er ekki á móti því að Alþingi kjósi fulltrúa í stjórn umræddrar stofnunar, það er rétt hjá hæstv. ráðherra. En ég vil koma í veg fyrir að meirihlutasjónarmið á Alþingi, þeir sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni ráði stofnuninni. Þess vegna höfum við lagt til að aðkoma fleiri aðila verði tryggð. Það leggjum við til í frumvarpi okkar.