132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum einfaldlega ósammála um þetta. Ég er einnig ósammála hv. þingmanni um að Ríkisútvarpið hafi verið svelt í gegnum tíðina. Það er ekki stofnun sem er svelt sem er með 2,3 milljarða í afnotagjöld og 750 milljónir í auglýsingar, það er ekki stofnun sem er svelt, engan veginn.

Hins vegar hafa orðið miklar og örar breytingar á fjölmiðlamarkaði. Við erum sammála um að við viljum hafa Ríkisútvarpið en því verður að vera gert kleift að starfrækja sig og sinna skyldum sínum í þágu menningar og almannaþjónustu undir því umhverfi sem við búum og lifum við í dag. Það umhverfi er að taka mjög örum breytingum. Þess vegna er ég sannfærð um að hlutafélagaformið er best til þess fallið að veita Ríkisútvarpinu það svigrúm og þau tækifæri sem það þarf til að standast þær kröfur sem við gerum til þess. Þess vegna erum við að fara þá leið til að styrkja Ríkisútvarpið, m.a. til að sjá fjölbreyttari innlenda dagskrárgerð o.s.frv.