132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:44]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir það frumkvæði sem hún hefur nú tekið í málefnum verkmenntaskóla landsins með því að skipa þá nefnd sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Ég vil raunar líka þakka hv. 7. þm. Suðurk., Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir að kveðja sér hljóðs og vekja með því athygli á þessu frumkvæði menntamálaráðherra. Það er mjög mikilsvert fyrir okkur stjórnmálamenn að það sem við gerum vel liggi ekki í þagnargildi.

Á hinn bóginn hygg ég að við þingmenn séum allir sammála um að þegar verið er að ræða um framhaldsmenntun í landinu sé nauðsynlegt að þeir komi þar að og leggi fram tillögur og greinargerðir sem mest hafa um þau mál hugsað, þeir sem hafa reynslu og best vit á þeim málum. Mér heyrist á málflutningi stjórnarandstöðunnar að þar séu fáir úr hópi stjórnarandstæðinga. Ég mundi leita annað til að fá holl ráð um framhaldsmenntun í landinu.