132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:46]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Halldóri Blöndal og þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja athygli þingsins á þessu merkilega og þarfa máli sem hér er til umræðu. Ég vil taka undir með þingmanninum og hrósa ráðherranum fyrir að skipa þennan starfshóp um starfsnám. Hafi þessi málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar verið ætlaður til að setja niður við menntamálaráðherra eða sem einhver aðför að henni þá verð ég að segja að í þetta skipti hafi stjórnarandstaðan slegið ansi hressilegt vindhögg í þá áttina.

Ég get ekki betur séð en að mjög faglega hafi verið staðið að því að skipa í þennan starfshóp. Hann er skipaður fagfólki, þar á meðal formanni þingflokks Framsóknarflokksins sem er reyndur og vel kynntur og þekktur skólamaður og á vel heima í nefndinni. En úr því að stjórnarandstaðan vill tilnefna sinn fulltrúa í nefndinni og hefur að mínu mati í málflutningi sínum gert frekar lítið úr því fólki sem þangað hefur verið skipað, þá vil ég fá að vita það hvort hv. þingmaður er með einhverjar tillögur um hvern eigi að taka út úr þessum hópi þannig að Samfylkingin geti komið sínum manni að. Það væri áhugavert að vita hver ætti að víkja.

Mér finnst dálítið sérstætt í allri þessari umræðu að stjórnarandstaðan er alltaf að kalla eftir samráði við sig, að þeir verði hafðir með í ráðum og fái að vera með og það er sérstaklega vísað til fjölmiðlamálanna í því sambandi. En hvernig hefur stjórnarandstaðan brugðist við þegar óskað hefur verið eftir samráði, t.d. um að semja hér lagafrumvarp? (Forseti hringir.) Hún hefur hlaupist undan ábyrgð og ekki viljað neitt samráð.