132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:49]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hafði stór orð um þá sögulegu sáttargjörð sem hún taldi sig hafa náð í málefnum fjölmiðla í gegnum samvinnu stjórnmálaflokkanna allra þó svo sú sögulega sáttargjörð hafi verið dæmd sem verra en ekkert, af hæstv. fyrrv. forsætisráðherra Davíð Oddssyni og þar með hafi kannski fokið út um gluggann og verið fyrir bí allur samstarfsvilji hæstv. ráðherra við aðra stjórnmálaflokka í meginmálum.

Hér er um að ræða ákaflega mikilvægt mál, eitt af grundvallarmálum í skólakerfi okkar, málaflokkur sem hefur verið fjársveltur og afskiptur í á annan áratug af menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins og þess vegna höfum við kallað eftir því að skipaður yrði þverpólitískur starfshópur, þverpólitísk nefnd til að reisa starfsnámið við, til að rétta verknámið af og efla verk- og listnám í framhaldsskólunum. En pólitískt viljaleysi stjórnarflokkanna hefur fram að þessu verið algert í málinu og þess vegna fögnuðum við því, um leið og við áteljum harðlega vinnubrögð menntamálaráðherra, að skipaður skuli loksins og vonum síðar starfshópur til að vinna að málefnum starfsnámsins.

Að sjálfsögðu er það gott þó seint sé. En það er dapurlegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ganga þannig fram og gera þannig tilraun til að fella þverpólitískt stórmál í menntakerfinu í skotgrafir flokkastjórnmálanna. Þar með er hæstv. ráðherra að skaða málið og vinna gegn því brautargengi sem það gæti haft væri staðið eðlilega að málum og því skora ég á hæstv. ráðherra menntamála að endurskoða fyrri ákvörðun sína, skipa í starfshópinn upp á nýtt að viðhöfðu samráði við stjórnarandstöðuflokkana á Alþingi þannig að Framsóknarflokkurinn einn og Sjálfstæðisflokkurinn, stjórnarflokkarnir fái ekki einir að skipa fulltrúa í þessa nefnd og þar með að vinna gegn málinu í stað þess að vinna því brautargengi.