132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:21]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann að líta til reynslunnar þegar hann talar fyrir sinni miklu ofurtrú á því að starfsemi sem þessi sé eingöngu í höndum ríkisins. Ég man þá tíð sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að allt mat á íslenskum sjávarafurðum var í höndum Ríkismats sjávarafurða. Þá datt ýmsum í hug hvort ekki væri rétt að færa það að verulegu leyti til fyrirtækjanna sjálfra. Gæti ekki verið að sú þróun hafi orðið til þess að stórauka gæði íslenskra sjávarafurða? Ég er algerlega fullviss um að það var miklu betra að hafa það í meira mæli í höndum fyrirtækjanna, og það var gert.

Væntanlega mundi hv. þingmaður leggja það til að Ríkismat sjávarafurða yrði endurreist og tekið upp á nýjan leik því að svo virðist sem hann hafi ekki trú á neinu öðru en ríkisrekstrinum.