132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:24]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gefur sér þá forsendu að aldrei hafi tekist vel að sameina ríkisstofnanir. Ég botna ekkert í þeirri forsendu. Hann fullyrðir m.a. að það hafi gefist illa að sameina sjúkrastofnanir. Það hefur einmitt gefist vel og það er enginn vafi á því að sameining spítalanna á Reykjavíkursvæðinu hefur skilað sér og mun skila sér enn betur til lengri tíma litið. Ég botna ekkert í þeirri forsendu sem hv. þingmaður byrjar á því að gefa sér.

Þetta mál er mjög vel undirbúið og það er ekki ástæða til annars en að ætla að það skili verulegri hagræðingu. Ég gerði grein fyrir því í framsögu minni og enn betri grein er gerð fyrir því í greinargerð með frumvarpinu. Ég vitna til þess og vænti þess að hv. nefnd sem fær þetta mál til athugunar geti komist enn betur að því við athugun sína á málinu.