132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé sjálfsagt að endurskoða þetta starfsumhverfi sem rannsóknastofnanirnar starfa í. Ég hef þó svolítinn fyrirvara um þetta mál og hann lýtur að því, hæstv. forseti, hvort menn þurfi ekki einmitt að óttast það að þegar búið verður að steypa þessu saman muni menn fara í að leita hinnar hörðu hagræðingar og þá komi upp að sú starfsemi sem staðsett hefur verið úti á landi á þessum sviðum verði lögð af. Ég beini spurningu til hæstv. forsætisráðherra um þetta. Ég nefni Símann sem dæmi, fyrirtæki sem var fyrst sett í einkarekstur og síðan einkavætt. Við vitum auðvitað að sumt af þessari rannsóknastarfsemi er í samkeppni á almennum markaði.