132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:52]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þingmanns um hvort til greina komi að aðrir aðilar komi inn í fyrirtækið þá er svarið já. Hlutafélagaformið er einmitt valið til þess m.a. að hægt sé að opna fyrir það, eins og segir í greinargerð á bls. 15, með leyfi forseta: „Þannig mætti sjá t.d. Samtök atvinnulífsins, öflug matvælafyrirtæki eða háskóla gerast eignaraðila að Matvælarannsóknum hf.“ Ég tel mjög mikilvægt að opnað verði fyrir það. Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað verður ríkið að vera ráðandi aðili í slíkum rannsóknum og ber þar miklar skyldur. En það er mjög mikilvægt að ná samvinnu við aðra aðila og það er ótvírætt að í því sambandi hentar hlutafélagaformið mun betur en önnur form, t.d. sjálfseignarstofnunarformið og í greinargerðinni er einmitt farið yfir það.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir og ég sé að hann hefur algerlega séð aðalatriði málsins þó að hann hafi haft lítinn tíma til að fara yfir það eins og hann sagði sjálfur.