132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta fjallar um að komið verði á laggirnar nýrri stofnun, Matvælarannsóknum hf., sem er vissulega ný en byggir á því að stofnunum sem eru við lýði er steypt saman í eina og hún gerð að hlutafélagi. Við ræðum núna hvert hlutafélagið á fætur öðru. Í gær ræddum við um hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og fyrri ræðumaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sagðist ekki treysta ríkisstjórninni varðandi söluna og þess vegna legðist hann gegn hlutafélagavæðingunni. Ég er honum sammála um það en að auki er ég andvígur því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi af ýmsum öðrum ástæðum eins og kom fram við umræðuna í gær. Eitt af því er að réttindi eru höfð af starfsfólki og hið nákvæmlega sama á við um þá starfsmenn sem hér eiga hlut að máli. Réttindi þeirra verða rýrari en þau voru áður eftir þessa breytingu. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin leggur ofurkapp á að breyta opinberum rekstri í hlutafélög einfaldlega vegna þess að þau eru dýrari að þessu leyti. Lífeyrisréttindi starfsmanna eru t.d. ódýrari og eins og fram kemur í greinargerð verður starfsfólkið meðfærilegra eða sveigjanlegra eins og það er kallað á fagmáli. Allt þetta er rækilega tíundað í greinargerð með frumvarpinu.

Eins og fram kemur í greinargerðinni og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra þegar hann rakti aðdragandann að því að þetta frumvarp kemur fram byggir þetta á nefndarstarfi allar götur frá árinu 2003. Vísað er í nefnd sem skilaði áliti fyrir hálfu öðru ári, árið 2004, þar sem lagt er til að matvælarannsóknir á Íslandi fari að mestu fram hjá einni öflugri stofnun, Matvælarannsóknastofnun Íslands. Eins og fram kemur síðan í frumvarpstextanum, sem nú hefur snúið þessu upp í háeffun, byggir þetta á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknum Keldnaholti og fleiri stofnunum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagðist hafa trú á því formi að færa þetta út í markaðsumhverfi vegna þess að hann tryði því að hægt væri að skapa markað fyrir rannsóknir. Það má vel vera að það sé rétt en ég vil að við skoðum þetta mjög rækilega, gefum okkur tíma til að hlusta á rök sem koma frá þeim sem starfa í þessum geira og hlustum á kosti og galla við slíka skipan. En hitt vil ég leggja áherslu á að ég held að þessi hugsun um samkeppni á sviði vísindarannsókna megi ekki ganga of langt. Þannig ræddum við það með tilurð Tækniháskólans á sínum tíma að æskilegt væri eða það var viðhorf ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra að skapa samkeppni á milli verkfræðideilda þess skóla annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar. Síðan þegar farið var að gaumgæfa hlutina betur og rýna í staðreyndirnar kom í ljós að verkfræðideild Háskóla Íslands var fjársvelt og gat ekki sinnt þeim vísindarannsóknum sem hún hefði gjarnan viljað sinna. Ég held að við séum stundum of smá í hugsun þegar kemur að því að horfa til alþjóðavæðingarinnar því að samkeppni okkar snýr ekki síst að því sem er að gerast erlendis, því sem er að gerast í útlöndum. Og stundum getur verið betra að sameina kraftana, búa til voldugar og öflugar stofnanir í stað þess að dreifa kröftunum um of. Þetta á t.d. við um háskólana og rannsóknir sem eru að eiga sér stað þar. Menn hafa deilt um það innan vísindaumhverfisins, um kosti þess og galla að vera í mjög nánu samstarfi við atvinnulífið sem kallað er. Það eru vissulega kostir við það en það geta líka verið fólgnir í því ákveðnir gallar vegna þess að atvinnulífinu, fyrirtækjunum hættir til að horfa til þess sem er í skammtímanum en ekki til langtímarannsókna. Framfarir 20. aldarinnar byggðu að verulegu leyti á því að starfandi voru víðs vegar um heiminn mjög svo öflugir háskólar, rannsóknastofnanir sem fengu að búa við öryggi m.a. til að sinna grunnrannsóknum. Nú er verið að hrófla við því öryggi og allt er hugsað á skammtímavísu og eigi að gefa hagnað hið allra fyrsta. Leiðin er því vandrötuð þarna á milli.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um ríkisstofnanir og ríkisrekstur með takmarkaðri virðingu þótti mér, sagðist muna þá tíð að hér hefði verið Ríkismat sjávarafurða og hvort menn vilji hverfa aftur til þess tíma. Ég held að það hafi verið margt ágætt um þá stofnun að segja. Ef ekkert getur plumað sig, ef ekki er hægt að starfrækja neina starfsemi nema hún sé hlutafélagavædd þá hljótum við að spyrja: Hvað með Háskóla Íslands? Hvernig stendur á því að hann virðist rækja sitt hlutverk prýðisvel, alla vega á flestum sviðum. Ekki er hann hlutafélag, þannig að við skulum vara okkur á að ganga of langt í þessu efni og þegar kemur að einkavæddri starfsemi þá er það staðreynd að breytingar sem gerðar hafa verið hafa síður en svo alltaf gefið góða raun. Ég nefni t.d. einkavæðingu rafmagnseftirlitsins sem slæm reynsla er af, mjög slæm. Rafmagnseftirlitið er miklu dýrara ef litið er á hverja skoðun auk þess sem það er miklu lélegra og eins og varað var við á sínum tíma þegar ráðist var í þær breytingar þá var hún á kostnað landsbyggðarinnar vegna þess að skoðunarstofurnar sem framkvæma eftirlit hvort sem það er með íbúðarhúsnæði eða opinberu húsnæði eru allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og svo er kostað miklu til að fljúga með eftirlitsmennina út um landið þar sem þeir framkvæma úrtaksskoðun. Allt hljómaði þetta kerfi óskaplega sannfærandi þegar talað var fyrir því á þinginu en reyndin varð hins vegar önnur.

Ég ætla hins vegar ekki að gefa mér neitt fyrir fram í þessu máli. Ég vil skoða það rækilega, ég vil skoða kosti og galla þessa fyrirkomulags sem hér er verið að leggja til en ég geri strax mjög alvarlegan fyrirvara við réttindaskerðingu hjá starfsfólkinu. Hér er það beinlínis sett í lög að það skuli ekki njóta þeirra almennu réttinda sem kveðið er á um landslögum og þá er ég að vísa í lífeyrissjóðinn. Í lagafrumvarpinu er sagt að sá réttur skuli tekinn frá starfsfólkinu. Starfsfólkið, sem nú eru opinberir starfsmenn, verður gert að starfsfólki hlutafélags og réttur þeirra til lífeyrisgreiðslna þegar það er komið á þann aldur að það ætti að geta tekið peninga út úr lífeyrissjóði er með 6. gr. frumvarpsins numinn brott. Þessu vil ég mótmæla.

Ég vek enn og aftur athygli á því að kerfisbreytingar stjórnvalda ganga yfirleitt út á þetta, að rýra réttindi opinberra starfsmanna og hafa réttindi af þeim, t.d. réttinn til að andmæla við uppsögn, þetta er það sem stendur í veginum fyrir því að hægt sé að reka þessar stofnanir á sveigjanlegan hátt sem þeir kalla. Það þykir alveg sérstaklega slæmt að ekki sé hægt að reka fólk skýringalaust. Síðan er viðkvæðið eins og við heyrðum í framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra að hlutafélagaformið sé svo þekkt, það séu skýrar reglur og skýr lög sem gildi um það. Þess vegna hljóti að vera gott að gera opinbera starfsemi að hlutafélögum.

Hlutafélög eru góð til síns brúks, til að vera félög eða fyrirtæki á hlutabréfamarkaði. Hæstv. forsætisráðherra sagði reyndar að það stæði til að reyna að fá fyrirtæki á markaði til að koma inn í þessa starfsemi. Það eru vissulega rök í málinu gagnstætt því sem við heyrum um Ríkisútvarpið þar sem til stendur að hluturinn í hlutafélaginu verði aðeins einn og eigandinn einn og handhafi hlutabréfsins einn en þetta eru þó rök í þessu máli vegna þess að hlutafélag byggir á tvennu: Að auðvelt sé að kaupa og selja hluti. Þetta var ókostur fyrirtækjanna sem við þekktum fyrir nokkrum áratugum að þau þurftu yfirleitt að selja í heilu lagi, en með hlutafjármarkaði og hlutafélagavæðingu ganga þessi eigendaskipti greiðar fyrir sig og á auðveldari máta. Þetta er einn kostur hlutafélagaformsins.

Annar kostur hlutafélagaformsins er aðhaldið frá markaði, þ.e. aðhaldið sem kemur frá eigendunum, hluthöfunum. Það sem yfirleitt vakir fyrir þeim er að fá eitthvað fyrir sinn snúð, arð af hlutum. Þeir efna til hluthafafunda til að fylgja sínum málum, kröfum og markmiðum eftir. Þess vegna stofna menn til hlutafélaga, til að ná þessu fram. Þetta eru kostir þess að hafa hlutafélög. Þegar það er hins vegar notað sem röksemd fyrir því að gera fyrirtæki eða stofnun að hlutafélagi að hlutafjárlögin séu svo skýr, þá eru það engin rök í sjálfu sér. Það verða hins vegar rök þegar á það er bent að til standi að selja hlutina eða að fá aðra aðila inn í púkkið. Það eru rök sem ég er reiðubúinn að hlusta á.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að gera annað en vekja máls á nokkrum atriðum sem snerta þetta mál. Ég hef gert mjög ákveðinn fyrirvara varðandi réttindi starfsfólksins. Ég tel það vera mjög ámælisvert að skerða þau í nokkru eins og gert er með þessu frumvarpi. Ég hef ákveðnar efasemdir um grunnhugsunina sem liggur að baki þessu frumvarpi þó að ég ætli ekki að gefa mér neitt endanlega í því efni en er reiðubúinn að hlusta á þau rök sem fram koma við umræðu og afgreiðslu þessa máls.