132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg stórfenglegt að upplifa það hversu langt Framsóknarflokkurinn og þingmenn Framsóknarflokksins ganga í að mæra markaðsvæðingu og í þessu tilviki hlutafélagsformið. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir endar ræðu sína á sérstökum hamingjuóskum til hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma þessum stofnunum inn í hlutafélagsform. Allir sem hér hafa talað hafa tekið jákvætt í þá hugmynd að efla matvælarannsóknir í landinu. Ég hef ekki orðið var við að menn hafi verið að gagnrýna það í sjálfu sér nema síður sé. Við höfum mörg talað fyrir því að efla rannsóknir. En við þurfum þá líka að huga að því hvernig að starfsfólki er búið og þeim sem sinna þessum rannsóknum. Nú bregður svo við að þeir eru ekkert yfir sig hrifnir af þessari hlutafélagabakteríu Framsóknarflokksins. Starfsmenn sem sinna þessum störfum á Rannsóknarstofnun háskólans eða atvinnuveganna eru ekkert áfjáðir í að láta hlutafélagavæða sig. Það á ekki heldur við um starfsmenn Ríkisútvarpsins sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði að væri alveg sérstakt gleðiefni að yrðu nú gerðir sveigjanlegri í meðförum. Hún orðaði það ekki þannig. En hún sagði að í hlutafélagaformi væri auðveldara að taka ákvarðanir. Ein af þessum ákvörðunum sem menn hafa sérstaklega bent á er að það er auðveldara að reka fólk skýringalaust og réttindi starfsmanna eru rýrari við þetta fyrirkomulag en í öðru fyrirkomulagi. Það er ein ástæðan fyrir því að margir og ekki síst bisnesshugsandi fólk vill færa opinberan rekstur í hlutafélagaform. En ég vil vekja athygli á því að (Forseti hringir.) okkur ber að hlusta á raddir starfsfólksins. Ég mun gera það þegar þessi mál koma til umfjöllunar.