132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó ég fagni því að við nýtum okkur hlutafélagaformið til að efla rannsóknir þá er ég ekki þar með að segja að fulltrúi Vinstri grænna sé eitthvað sérstaklega á móti því að efla rannsóknir, alls ekki. Ég heyri að hann vill efla rannsóknirnar.

Ég hef hins vegar dregið það fram hér, og þetta frumvarp byggir á því, að hlutafélagaformið sé nýtt. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt. Af hverju? Jú, vegna þess að þannig er hægt að fá fleiri að starfseminni og þessi starfsemi er þess eðlis að ég tel að það sé mjög æskilegt. Það er nefnt í greinargerðinni. Þar eru nefndir aðilar eins og Samtök atvinnulífsins og matvælafyrirtæki. Það hlýtur að vera mjög æskilegt að fá matvælafyrirtæki að svona starfsemi. Það hlýtur að vera frábært. Svo eru það háskólar. Ég tel að þetta form henti mjög vel. Vel má vera að það sé rétt að einhverjir starfsmenn hafi áhyggjur af þessu. Það er ósköp eðlilegt þegar breytingar eru gerðar að menn hafi áhyggjur af sinni stöðu og vilji skoða hana. En ég tel að ef okkur þingmönnum finnst þetta vera skynsamlegt form, hlutafélagaformið, þá eigum við að styðja það og ég geri það. Ég tel að sú hugmyndafræði um að setja þessar rannsóknarstofnanir saman í eitt hlutafélagaform muni geta eflt þessar rannsóknir verulega og það er til hagsbóta fyrir rannsóknirnar og fyrir samfélagið þar með.

Framsóknarflokkurinn og ég höfum stutt blandað hagkerfi. Við höfum styrkt ríkisrekstur þar sem hann á við og samkeppnisrekstur þar sem hann á við. Vinstri grænir vilja ganga miklu skemur en við og hafa svona frekar, þ.e. ef maður talar um hugmyndafræðina almennt, stutt meiri ríkisafskipti. En í þessu tilviki gagnvart þessum rannsóknum tel ég að hlutafélagaformið eigi vel við og að ríkisreksturinn sé mun ósveigjanlegri en þetta nýja kerfi mun bjóða upp á.