132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er til ríkisafskiptaflokkur þá er það Framsóknarflokkurinn með sinni stóriðjustefnu og mestu fjárfestingum sem hugsast geta á kostnað skattborgarans inn í mjög vafasama uppbyggingu atvinnulífs að mati flestra hagfræðinga sem hafa ekki verið svo ógæfusamir að lenda í nefnd á vegum Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Hvers konar rugl er þetta?) „Hvers konar rugl er þetta?“ Við skulum taka þessa umræðu nánar hér á eftir. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Mér finnst það vera rök í sjálfu sér — hvað er það sem hæstv. forsætisráðherra er að reyna að segja? (Gripið fram í: Þetta er ótrúlegt rugl.) „Ótrúlegt rugl“ kemur hérna úr þessu horni og ástæða er til að taka rækilega umræðu um það. Það verður gert hér á næstu dögum, svo sannarlega, um þetta glapræði sem þeir eru að kalla yfir þjóðina og heitir atvinnustefna Framsóknarflokksins og er að eyðileggja náttúruna og leggja efnahaginn í rúst.

Varðandi matvælastofnun þá eru það rök í sjálfu sér ef menn ætla að kalla á eignarhald annarra fyrirtækja að þessari stofnun. Það eru rök sem ber að íhuga. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að það sé eðlilegt að fyrirtæki eigi að koma inn í slíkar rannsóknir í formi eignarhalds. Hægt er að hugsa sér samstarf um verkefni án þess að eignarhald komi til sögunnar. Ég er ekki sannfærður um að það sé heppilegt form. Telja menn heppilegt að fyrirtæki fái eignarhlut í Háskóla Íslands? Ég held ekki. Ég held að við eigum að kappkosta um að hafa þessar grunnrannsóknir — þetta er að vísu í praktískum rannsóknum og því sem talað hefur verið um sem grunnrannsóknir — í öðru formi en með eignarhaldsaðild. Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég held að við eigum að halda þessum stofnunum sem sjálfstæðum einingum sem síðan efna til samstarfs um tiltekin verkefni við fyrirtæki á markaði. Ég held að það sé heppilegra form og þetta er er nokkuð sem við hljótum að taka til umfjöllunar.