132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:30]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mótmæli því að atvinnustefna Framsóknarflokksins og núverandi stjórnvalda sé ekki öflug og góð. Við höfum séð hvernig atvinnulífið hefur byggst upp á síðustu árum og það er geysilega öflugt atvinnulíf hér, mjög lítið atvinnuleysi, nánast ekki neitt. Hér hefur kaupmáttur stóraukist upp á síðkastið. Við höfum verið að styrkja velferðarkerfið, efla skólana, efla heilbrigðiskerfið o.s.frv. (ÖJ: Skuldum …) Hér hefur því verið rekin mjög öflug atvinnustarfsemi og margar erlendar þjóðir líta til okkar öfundaraugum. Við höfum verið að skora mjög hátt á öllum mælistikum sem notaðar eru í þróuðum ríkjum, hv. þingmaður.

Varðandi hlutafélagaformið sem við erum að ræða þá segir hv. þm. Ögmundur Jónasson að hann telji að fyrirtækin eigi ekki að eiga í rannsóknarfélagi. Ég virði alveg það sjónarmið, ég er bara ekki sammála því. (Gripið fram í.) Í þessum rannsóknum er m.a. verið að rannsaka afurðir í sjávarútvegi, afurðir í landbúnaði o.s.frv. Það er líka verið að rannsaka innfluttar afurðir en við erum jafnframt að rannsaka útfluttar afurðir.

Auðvitað eru það hagsmunir fyrirtækjanna að þær rannsóknir séu mjög góðar og það eru geysilegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir þessi fyrirtæki. Tökum bara sjávarútvegsfyrirtæki, það að geta sýnt fram á mjög öflugar rannsóknir, réttar niðurstöður og að þær séu framkvæmdar á eins faglegan hátt og hægt er miðað við tækni hvers tíma og allt það, af hverju mega þau fyrirtæki þá eiga ekki í hlutafélagi sem (ÖJ: Ég er að tala um samstarfsumhverfi.) sér um svona rannsóknir? Ég sé ekkert að því. Mér finnst frábær hugmynd og frábær hugmyndafræði á bak við það að aðilar geti komið að þessum rannsóknum með eignaraðild. (Gripið fram í.)