132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:23]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er lagt til að felld verði niður árleg úthlutun aflamarks, samkvæmt 9. gr. a, í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og í staðinn verði aflahlutdeild í þorski úthlutað varanlega til þeirra báta sem þessarar úthlutunar hafa notið.

Í upphafi árs 1999 var ákveðið að í sjö ár eða frá fiskveiðiárinu 1999/2000 til fiskveiðiársins 2005/2006 skyldi úthluta 3.000 lestum af óslægðum þorski til fiskiskipa sem höfðu haft aflahlutdeild 1. desember 1998 og minni voru en 200 brúttótonn, enda hefðu þau landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Þetta ákvæði var sett sem bráðabirgðaákvæðin við lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990. Þessi 3.000 lesta sérstaka úthlutun hefur verið kölluð „jöfnunarpottur“ í daglegu tali.

Úthlutun til einstakra báta er miðuð við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Eins og áður sagði er við úthlutun miðað við aflahlutdeildarstöðu einstakra fiskiskipa 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári. Úthlutun til fiskiskips má þó aldrei leiða til þess að bátur fái meira en 100% aukningu í þorskaflamarki og enginn fær hærri úthlutun en 10 lestir, miðað við óslægðan fisk. Loks má úthlutun aldrei leiða til þess heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals í upphafi fiskveiðiárs.

Aflaheimildum samkvæmt ofangreindri grein hefur verið úthlutað árlega síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Í upphafi áttu 497 fiskiskip rétt til úthlutunar og þar af voru 234 með hámarksúthlutun en önnur með minna. Hámarksúthlutun til hvers skips er 10 lestir af óslægðum þorski, eins og fyrr er sagt, en það jafngildir 8,4 lestum af slægðum þorski. Fjöldi úthlutunarrétta er óbreyttur frá upphafi en það tekur nokkrum breytingum milli fiskveiðiára hvernig úthlutun skiptist milli fiskiskipa. Hafa 40 úthlutunarréttir aldrei gefið úthlutun og hefur skýringin annaðhvort verið sú að skip hafi átt aflaheimildir yfir 450 þorskígildislestum eða engar aflaheimildir í þorski. Með lögum nr. 85/2002 var ákveðið að fyrrgreint ákvæði félli ekki niður í lok fiskveiðiársins 2005/2006 eins og upphaflega stóð til heldur yrði varanlegt og var það flutt inn í megintexta sem 9. gr. a, laga nr. 38/1990.

Hér er hins vegar lagt til að fallið verði frá sérreglum varðandi úthlutun á þessum 3.000 lestum af þorski og að fiskiskipum sem þessarar úthlutunar hafa notið verði í staðinn úthlutað aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2006/2007. Efnisbreytingarnar felast í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins og 1. og 2. gr. frumvarpsins er afleiðing af niðurfellingu greinarinnar.

Gert er ráð fyrir að við útreikning aflahlutdeildar hvers úthlutunarréttar verði reiknigrunnurinn meðaltal þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum. Þó skal skerða meðaltalið hlutfallslega miðað við lækkun leyfilegs heildarafla í þorski milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Leyfilegt aflamark í þorski var á fiskveiðiárinu 1999/2000 250 þús. lestir en er á yfirstandandi fiskveiðiári 198 þús. lestir. Rétt þykir að miða við það ár er fyrst kom til úthlutunar úr jöfnunarpotti. Fullur réttur mun þá standa í 6,65 lestum miðað við slægðan þorsk. Aflahlutdeild hvers fiskiskips er síðan reiknuð út frá reiknigrunni þess sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski.

Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að sérstök úthlutun, sem ekki byggir á aflahlutdeild heldur á öðrum forsendum, skapar óhagræði án þess að séð verði, eftir að fallið var frá að hafa ákvæðið tímabundið, að það hafi lengur nokkurn sérstakan tilgang. Eins og áður segir þarf aflamarksstaða fiskiskips að vera með ákveðnum hætti um hver fiskveiðiáramót til að rétturinn nýtist að fullu. Hjá nokkrum hluta skipanna hefur það leitt til þess að aflaheimildir eru ýmist fluttar af skipum eða á þau til að þau verði í heppilegri aflmarksstöðu um fiskveiðiáramót. Þá hafa þröngar reglur sem gilt hafa um flutning úthlutunarréttar milli skipa valdið óhagræði, m.a. við endurnýjun skipa og sameiningu aflaheimilda. Þetta gildir ekki síst um minni útgerðir. Til eru allmörg dæmi um að menn hafi orðið að halda fiskveiðiréttinum, þessum jöfnunarrétti, á gömlum skipum þrátt fyrir að hafa keypt ný skip, til að verja þann rétt sem ekki hefur verið hægt að færa á milli og sameina líkt og annars er gert með aflahlutdeild.

Það þykir ástæða til þess að einfalda fiskveiðistjórnarkerfið og gera þá breytingu sem hér er lögð til. Rétt er að árétta að hún raskar ekki þorskveiðiaflaheimildum einstakra skipa þar sem þessi sérstaka úthlutun hefur ávallt verið dregin frá leyfilegu heildaraflamarki í þorski fyrir úthlutun á grundvelli aflahlutdeildar en fellur nú inn í hina almennu úthlutun. Hins vegar er ljóst að þegar þessi breyting tekur gildi þarf að endurreikna aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski með hliðsjón af breytingum sem þessi úthlutun aflahlutdeildar veldur.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. sjávarútvegsnefndar.