132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:44]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum Frumvarpið fjallar um hinn svokallaða 3.000 tonna jöfnunarpott af óslægðum þorski. Í upphafi fiskveiðiárs hefur verið úthlutað aflahlutdeild í þorski þeim sem hafa haft rétt skv. 9. gr. a laganna. Hér er verið að einfalda og skerpa enn frekar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og því er þessi breyting mjög mikilvæg. Í áranna rás hefur alltaf verið tekið tillit til þessara heimilda og þær verið dregnar frá leyfilegu heildaraflamarki í þorski á grundvelli aflahlutdeildar og því hefur þetta ekki áhrif á þorskveiðiaflaheimildir til einstaka fiskiskipa þar sem þessi sérstaka úthlutun hefur ávallt verið dregin frá leyfilegum heildarafla. Hér eftir verður þessi jöfnunarpottur sameinaður í heildarúthlutun á varanlegu aflamarki. Ríkt hefur mikil óvissa hjá þeim aðilum sem hafa haft þennan rétt, en hámarksúthlutun til hvers skips hefur verið 10 tonn af óslægðum þorski sem svarar til 8,4 tonna af slægðum þorski. Samkvæmt frumvarpinu verður miðað við heildarhlutfall til leyfilegs aflamarks í þorski sem var á fiskveiðiárinu 1999/2000, 250.000 lestir en er nú á þessu fiskveiðiári 198.000 lestir og er því lækkun upp á rúm 20%. Við erum að ræða um að 8,4 tonnin af slægðum þorski verði varanleg um 6,7 lestir af slægðum þorski.

Frú forseti. Aflaheimildum samkvæmt 9. gr. a hefur verið úthlutað árlega síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Eins og fram kemur með greinargerð með frumvarpinu áttu 497 fiskiskip í upphafi rétt til úthlutunar og þar af voru 234 fiskiskip með hámarksúthlutun en aðrir með minna. Úthlutunarréttur hefur ekki breyst í fjölda ára en hefur tekið breytingum á milli fiskveiðiára, þ.e. hvernig úthlutun skiptist á milli fiskiskipa. Af þessum 497 úthlutunarréttum hafa 40 aldrei gefið úthlutun. Helstu skýringar eru þær að annaðhvort hefur viðkomandi skip ekki verið með aflaheimildir í þorski eða aflaheimildir viðkomandi skips farið fram yfir 450 þorskígildislestir en það er hámark sem miðað hefur verið við.

Sjávarútvegsráðherra hefur heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa. Það er ljóst að að lokinni þessari úthlutun mun aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð að teknu tilliti til þeirra breytinga sem þessi úthlutun leiðir til.

Frú forseti. Þessi sérstaka úthlutun hefur ekki breyst þrátt fyrir breytingar á aflahlutdeild á milli ára. Það er meira jafnræði að leggja þennan 3.000 tonna pott af og gera hann að varanlegum aflaheimildum. Það hefur verið mikil óvissa hjá þeim aðilum sem hafa fengið þessa úthlutun en með þessari breytingu er búið að eyða henni. Ég fagna því mjög að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli leggja þetta frumvarp fram og ég vona að almenn samstaða verði um það.