132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:03]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Þetta er svona með styttri frumvörpum sem hér eru flutt. Það er afar einfalt. En það má nú segja um þetta að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi því oftast spinnast miklar umræður um öll frumvörp er lúta að sjávarútvegi hversu lítil eða stór þau eru. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta einfalda frumvarp byggir á því fylgja eftir hinni pólitísku ákvarðanatöku sem hér var tekin 1999. Þá var það pólitísk ákvörðun líka að taka úr stóra pottinum 3.000 tonn og verja þeim sérstaklega til minni báta sem höfðu takmarkaðar aflaheimildir. Með því móti var verið að styrkja og koma til móts við þarfir þessa flota. Eins og hér hefur verið rifjað upp þá var jafnframt ákveðið að láta þetta renna út á árinu 2006. Það má svo líta á, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, að verið sé að fylgja því eftir. Nú er komin á þetta reynsla og kalla má sanngjarna þá aðferð sem valin er.

Kosturinn við þetta er sá að með þessu er verið að einfalda kerfið og það er rétt hjá hv. þingmanni Guðjóni Arnari Kristjánssyni að með þessu er að sjálfsögðu verið að festa í sessi fyrirkomulag sem honum er að vísu ekki mjög hugleikið. En um leið er verið einfalda það. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er með þessu verið að auka sveigjanleika og auka frelsi. En umfram allt er verið að eyða óvissu því staðreyndin er sú að þeir sem hafa átt möguleika á að sækja í þennan pott hafa aldrei getað gengið að neinu vísu í þeim efnum. Að því leytinu til er verið að eyða óvissu og jafnframt að draga úr deilum sem ávallt spretta upp þegar úthlutað er takmörkuðum verðmætum og auðlindum.

Hvaða aðferð er svo valin til þessa? Það er valin sú aðferð að skila aftur í pottinn en að vísu fá þeir sem hafa nýtt sinn rétt til fullnustu að njóta góðs af því og þar með hafa þeir komist yfir meiri verðmæti en þeir hafa haft, en því sem er svo skilað inn í heildarpottinn má segja að sé í rauninni það sem ekki hefur verið nýtt. Þetta er ef til vill sanngjarnasta leiðin sem hægt er að finna í þessu og því full ástæða til að styðja hana því þeir sem hafa nýtt réttinn munu njóta góðs af því og það er sanngjarnt. Hins vegar tek ég undir vangaveltur hv. þingmanns Jóns Gunnarssonar um hvort ekki eigi að skoða þessa þriggja ára úthlutunarreglu sem einatt er notuð og heyri að hæstv. ráðherra tekur undir það. Það er auðvitað eitt af þeim verkefnum sem sjávarútvegsnefnd þarf að leggjast yfir þegar hún fer yfir málið.

Aðeins í lokin vil ég árétta að hér er verið að eyða óvissu og að ýmsu leyti bæta öryggi og auka verðmæti. En í framhaldi af því sem hv. þingmaður Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi hér um áhyggjur sínar af að í smábátakerfinu væru aflaheimildir að færast á færri og færri hendur þá er rétt að minna á frumvarp sem hæstv. ráðherra mun mæla fyrir hér á næstu dögum þar sem sett er þak einmitt til að koma í veg fyrir að það verði aðeins örfáir sem stundi hér smábátaútgerð. Það ætti að létta áhyggjum af hv. þingmanni.

Fleiri orð þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta. Þetta er til að einfalda kerfið og auka sveigjanleika og líklega er farin sú sanngjarnasta leið sem hægt er að fara í þessu. En þá um leið er verið að viðurkenna og styðja við þennan flota sem hefur getað sótt í þetta á síðustu árum.