132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:44]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem mér hefur fundist í meginatriðum mjög málefnaleg. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn ræði sjávarútvegsmálin vítt og breitt. Mér þótti mjög gaman að hlusta á hina sögulegu upprifjun hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar á hlutum sem sumir voru farnir að gleymast í mínum huga þó að við höfum oft verið að þvælast í þessum málum saman og takast á við ýmsar af þeim breytingum sem hann talaði um þegar við sátum fiskiþingin í gamla daga — að hlusta á ýmislegt sem hann var að rifja upp var eins og að hitta gamlan kunningja.

Mér fannst það fullmikil hæverska af hálfu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og Jóns Bjarnasonar þegar þeir töluðu um að þeir ættu erfitt með að skilja frumvarpið. Ég heyrði ekki annað, þegar ég hlustaði á þá, en að þeir skildu frumvarpið alveg prýðilega og næðu meginatriðum þess. Þótt ég geti viðurkennt að hógværð sé ágætis dyggð og hæverska þá fannst mér gæta fullmikillar hæversku hjá þeim. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði frumvarpið svo flókið að hann skildi það ekki en tók samt undir varnaðarorð Guðjóns A. Kristjánssonar um frumvarpið svona til vonar og vara, þótt hann skildi hvorki upp né niður í því. Það er gott að vilja fara gætilega í hlutina og að þingmenn séu gætnir í því sem þeir fjalla um.

Áðan spurði hv. 10. þm. Suðurkjördæmis, Jón Gunnarsson, hvort samráð hefði verið haft í þessum efnum. Í því sambandi vil ég nefna tvennt. Í fyrsta lagi liggja fyrir ályktanir frá Landssambandi smábátaeigenda og Landssambandi íslenskra útvegsmanna um að þeir vilji afnema þetta fyrirkomulag. Landssamband smábátaeigenda, ef ég man rétt, ályktar eiginlega harðar um að fara þá leið sem hér er lögð til í meginatriðum. Ég ræddi við fulltrúa beggja þessara hagsmunasamtaka á undirbúningsstigi og greindi þeim frá því sem ég hefði í huga. Auðvitað ber ég pólitíska ábyrgð á þessu en ég met það svo að ágætis samráð hafi verið haft við undirbúning málsins.

Stóra spurningin sem vaknar þegar við fjöllum um efni frumvarpsins snýst um aðferðafræði. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði sem svo að á sínum tíma hafi tiltekin skip sem lítið höfðu fyrir fengið viðbótaraflaheimildir. Það er alveg rétt. Núna festum við þessa úthlutun einfaldlega betur í sessi. Við erum að gera hana að aflahlutdeild og gefa þar með kost á því að nýta þessa aflahlutdeild með eins hagkvæmum hætti og menn telja sjálfir skynsamlegt og best. Ég tel að með þessu frumvarpi styrkjum við grundvöll útgerðanna. Auðvitað hafa þær heimild til að ráðstafa þessu. Aðalatriðið er þó að grundvöllurinn verður betri fyrir þessi skip.

Við skulum taka tilbúið dæmi sem á hins vegar stoð í raunveruleikanum. Tökum dæmi af útgerðarmanni sem á lítinn bát og kaupir síðan viðbótarbát til að reyna að styrkja tekjugrundvöll sinn. Nýja bátnum fylgir þessi jöfnunarpottur og hann átti jöfnunarpott fyrir. Þá lendir hann í þeim vanda að hann getur flutt aflaheimildir af bátnum sem hann kaupir á gamla bátinn sinn en ekki jöfnunarpottinn. Við þekkjum mýmörg dæmi um að útgerðarmaður í þessari stöðu reyni að verja þessa heimild sína. Hann gerir það þá með því að vista þetta annars staðar eða gera aðrar kúnstir. Hann heldur kannski gamla bátnum sínum til að koma í veg fyrir að hann missi þennan rétt. Sú aðferð leiðir til óhagkvæmari útgerðar. Þetta er liggur ekki síst til grundvallar þessari breytingu, að reyna að styrkja og bæta rekstrarstöðu minni útgerða. Ég tel þetta í anda þess sem við gerðum á sínum tíma, fyrir fimm, sex árum þegar við settum viðbótarheimildir á tiltekinn bátaflota, að fylgja því eftir eins og hér er lagt til.

Spurt var hvort úthluta ætti aflaheimildunum að einhverju leyti á grundvelli veiðiréttar. Ég vék að því í stuttu máli í andsvari áðan. Ég ætla að koma aðeins betur inn á það. Það sem hér er lagt til varðandi úthlutunina og kemur fram í hinum flókna lagatexta er að ekki verði um að ræða fortakslausa úthlutun. Hv. þm. Jón Bjarnason spurði t.d. áðan hve margir bátar mundu koma til greina við úthlutun á veiðiréttinum. Í upphafi fengu 497 bátar slíka úthlutun en 40 svona heimildir hafa ekki verið nýttar nokkurn tíma. Það þýðir, verði þetta frumvarp að lögum, að sá veiðiréttur dettur niður. 40 bátar, 40 jöfnunarkvótar sem ekki hafa verið nýttir hafa aldrei verið verðmæti, kvótar sem ekki eru nýttir skapa ekki verðmæti. Þess vegna tel ég breytinguna mjög eðlilega.

Ég tel eðlilegt, þegar menn hafa ekki nýtt sér veiðirétt sem þeim var færður á vissan hátt, sem úthlutað var með tilteknum aðferðum árið 1999/2000, að hann komi ekki til úthlutunar sem aflahlutdeild. Það eru því 457 bátar eða 457 kvótar sem koma að líkindum til úthlutunar. Þótt það sé ekki á grundvelli veiðiréttar þá er það á grundvelli nýtingarsögunnar, hvernig menn hafa nýtt veiðiheimildir sínar sem þeir fá síðan úthlutað sem aflahlutdeild. Ég vona að þetta sé sæmilega skýrt. Ég geri hér tilraun til að segja þetta á mannamáli sem fram kemur í hinum meinta flókna lagatexta. En textinn þarf að vera svona til að menn geti stuðst við hann í framtíðinni. Ég tel því að á vissan hátt sé reynt að koma til móts við þau sjónarmið að óeðlilegt sé að menn fái með þessu veiðirétt á grundvelli einhvers sem þeir hafa ekki nýtt sér.

Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hvort frumvarpið hefði áhrif á nýliðun. Ég held að það sé ekki það stórt í sniðum að það hafi áhrif á nýliðun. Þetta hefur hins vegar þau áhrif sem ég lýsti, að grundvöllur þessara báta sem hafa átt tiltölulega litlar aflaheimildir, aflaheimildir innan við 450 þorskígildistonn, verði styrkari en áður.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði að þetta ætti ekki að vera verkefni sjávarútvegsráðherra. Það ætti að vera eitthvað stærra og stórkostlegra. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað á sjávarútvegsráðherra að fást við ýmislegt annað en þetta mál. En hann á líka að fást við þetta vegna þess að málið snýst einfaldlega um betra fyrirkomulag fyrir þá útgerðarmenn 450–500 báta sem búa við fyrirkomulag sem a.m.k. að mínu mati er óhagkvæmt. Auðvitað á ég þá að reyna að laga það.

Ég held að út af fyrir sig hafi ekki vaknað fleiri spurningar. Ég gæti nefnt ýmislegt um aðrar ræður sem voru fluttar, almennar ræður hv. þingmanna. Ég tek undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að við höfum allar heimildir til að ganga fram í þessum efnum eins og hér er gert. Ég vakti athygli á því að miðað við tonnafjöldann sem menn fá í dag þá fá þeir væntanlega færri tonn eftir breytinguna en þeir fá hins vegar betri rétt, a.m.k. mun sá réttur verðlagður með öðrum hætti. Við undirbúning málsins og á fundum sem ég hef setið eftir að frumvarpið kom fram hefur mér heyrst sem ýmsum fyndist bara vel í lagt. Ég á því von á að þegar sjávarútvegsnefnd fer yfir málið komi fram ýmis sjónarmið, bæði með og á móti.

Kjarni málsins er hins vegar þessi: Með frumvarpinu er veiðiréttur, sem ákveðið var að úthluta með tilteknum hætti frá og með árinu 2002, gerður að aflahlutdeild og hafa menn þá sömu tækifæri og möguleika til þess að nýta þann rétt eins og um annan veiðirétt væri að ræða. Á því byggist frumvarp þetta í meginatriðum. Ástæðan er sú, eins og margoft hefur komið fram af minni hálfu, að ég met það svo að með því verði viðkomandi útgerðir öflugri og hagkvæmari. Ég á ekki von á að þetta skipti algjörum sköpum fyrir útgerðarflokkinn. En þetta er þó viðleitni í þá átt að styrkja flotann og til þess er frumvarpið lagt fram.