132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að byrja á að lýsa bæði undrun minni og furðu á þessu frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fyrir þingið. Ég átti satt að segja ekki von á að hæstv. ráðherra Einar K. Guðfinnsson skipti svona fljótt um skoðun og raunin virðist vera á því ekki er langt síðan að sá hinn sami maður skrifaði undir meirihlutaálit í sjávarútvegsnefnd um það hvernig ætti að ráðstafa eignum þróunarsjóðs og það var með öðrum hætti en kemur fram í þessu frumvarpi.

Ég verð einnig að segja, frú forseti, að ég hefði ekki orðið hissa þó forveri hæstv. ráðherra í starfi hefði lagt fram frumvarp eins og þetta. Þessi orð mín byggi ég á þeirri reynslu sem ég hafði af því að eiga orðastað við hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, varðandi þá fjármuni sem voru til í þróunarsjóði og ráðstöfun á þeim. Við munum það allir sem erum hér í salnum hvernig umræðan var um það þegar við tókumst á á vordögum 2005 hvernig ætti að verja fjármunum þróunarsjóðs. Þá lá alveg skýrt fyrir að hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen, ætlaði þessa fjármuni í Verkefnasjóð sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar. Það var upprunalegi lagatextinn sem kom frá þeim hæstv. ráðherra.

Í meðförum sjávarútvegsnefndar og eftir mjög miklar umræður í nefndinni sem hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra tók verulegan þátt í og átti þátt í að móta skoðun nefndarinnar á málinu, var niðurstaðan sú bæði hjá meiri hluta og minni hluta að rétt væri að breyta texta frumvarpsins og leggja fyrir Alþingi breytingartillögu sem gerði ráð fyrir að fjármunir þróunarsjóðsins mundu renna til hafrannsókna. Punktur. Ekki á vegum Hafrannsóknastofnunar eins og fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði lagt til. Þetta var ekki ákvörðun sem sjávarútvegsnefnd tók að óathuguðu máli. Uppi hafa verið umræður um það nokkuð lengi hvort ekki væri rétt að opna þetta rannsóknarumhverfi fyrir öðrum aðilum en vísindamönnum Hafró og hvort ekki væri rétt að ríkið hefði til þess einhverja fjármuni. Þarna sáu menn möguleikana á því að nota fjármuni sem greinin sjálf hafði greitt inn í Þróunarsjóð sjávarútvegsins til að fara þessa leið.

Við deildum um það á vordögum, frú forseti, hve miklir fjármunir þetta væru. Það stóð yfir ansi skörp umræða um það lengi vel. Ég er hér með nefndarálit frá minni hluta sjávarútvegsnefndar þar sem vikið er að því að þessir fjármunir líklega yrðu milli 500 og 600 millj. kr. Það lítur nú út fyrir þegar þróunarsjóðurinn er endanlega uppgerður, þó ekki sé komin alveg endanleg tala, að þetta sé nær 700 milljónum. En það eru engar nýjar fréttir að þetta séu miklir peningar. Alþingi tók þá ákvörðun og samþykkti að fjármunir sem kæmu úr þróunarsjóðnum ættu að renna í Verkefnasjóð sjávarútvegsins og að þá ætti að nýta til hafrannsókna. Punktur.

Við gerðum okkur alveg grein fyrir því þegar ræddum þetta að þetta gætu orðið um 600 milljónir eða þaðan af meira. Við í minni hlutanum minntum reyndar lengi vel í þeirri umræðu og alla tíð sem sú umræða stóð yfir á gamla samþykkt sjávarútvegsnefndar og þingsins um að hluti af fjármunum þróunarsjóðsins ætti að renna til verndunar gamalla skipa og lögðum það til að af fjármunum þróunarsjóðsins færi ákveðin upphæð til hafrannsókna en jafnframt að það sem út af stæði gæti farið til varðveislu gamalla skipa og var kútter Sigurfari á Akranesi meðal annars nefndur. Mér sýnist að ef staðið hefði verið við þá samþykkt Alþingis sem þá var gerð um hvernig ætti að verja parti af tekjum og eignum þróunarsjóðs þá væri Kútter Sigurfara vel borgið því að fjármunir þróunarsjóðs reynast það miklir og ívið meiri en við gerðum ráð fyrir, þó þar muni ekki miklu, að það gamla skip hefði komist í gott ástand og fleiri skip einnig fyrir þá fjármuni sem þarna eru.

Af hverju er ég að minnast á að hér sé í raun og veru verið að breyta ákvörðun Alþingis sem tekin var á vordögum með því að leggja fram nýtt frumvarp? Jú, vegna þess að það er ekki bara það að verið sé að leggja hér til að þessir fjármunir renni ekki í verkefnasjóðinn, eins og hæstv. ráðherra fór yfir hér, heldur í ríkissjóð, sem í sjálfu sér hefði kannski verið allt í lagi ef staðið hefði verið við það að þeir ættu að renna til hafrannsókna, en í greinargerð með frumvarpinu segir að langmestur hluti þessara fjármuna skuli renna til hafrannsókna. Á vegum hvers? Er nokkur hissa eins og hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra lét, sem nú er orðinn fjármálaráðherra og vill fá þessa fjármuni í sinn kassa? Á vegum hvers? Á vegum Hafrannsóknastofnunar nákvæmlega eins og textinn sagði í frumvarpi hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Árna Mathiesens, á sínum tíma. Það er því alveg ljóst að sá ágæti ráðherra hefur ekki sætt sig við ákvörðun Alþingis. Núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur hér með arf eða fyrir þrýsting til að setja ofan í við þingið, til að breyta þeirri ákvörðun sem þingið tók á vordögum um að nú ætluðum við í alvöru að eyrnamerkja fjármuni í það að aðrir aðilar gætu komið með raunhæf verkefni í hafrannsóknum og fengið til þess styrk og fjármuni úr ríkissjóði.

Það er aumt klór í bakkann að tiltaka 25 milljónir af 700 milljónum til þess verkefnis og slá sér hér á brjóst í ræðupúlti Alþingis og segjast með því vera að tryggja það að ungir og upprennandi vísindamenn, rannsóknar- og vísindamenn sem ekki eru á Hafrannsóknastofnun, gætu nú loksins farið að rannsaka lífríkið í hafinu. 25 milljónir, hvaða rannsóknir er hægt að ráðast í fyrir þá fjármuni? Berum það saman við þá fjármuni sem fara í hafrannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun og enginn sér svo sem eftir. Það hljóta allir að sjá að á mælikvarða þess hvað kostar að setja á laggirnar alvörurannsóknarverkefni á lífríki sjávar þá eru þessar 25 milljónir, sem hæstv. ráðherra er að eyrnamerkja hér fyrir aðra en Hafrannsóknastofnun til að sækja í, smápeningar og ekkert annað en smápeningar.

Við þingmenn gerðum okkur alveg grein fyrir því þegar við fórum yfir þetta mál á sínum tíma að þarna væri einstakt tækifæri til að gera kerfisbreytingu. Það væri einstakt tækifæri til þess að leggja þær 400 milljónir eins og við vorum að tala um þá, þó að við gerðum okkur grein fyrir og það kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að þetta gætu orðið 600 milljónir, til hliðar og allir væru jafnsettir að sækja um í styrk þessa fjármuni með raunhæf verkefni í rannsóknum á lífríki sjávar og fiskstofnum, og þær umsóknir sem kæmu yrðu bara vegnar og metnar á vísindalegum grunni og Hafrannsóknastofnun hefði í raun og veru engan forgang í þessa peninga. Það var umræðan sem við tókum í sjávarútvegsnefnd. Man hæstv. ráðherra ekki eftir þeirri umræðu? Hún var í apríl á síðasta ári, það er ekki lengra síðan. Hæstv. ráðherra hlýtur að muna eftir því þegar þessi umræða var tekin í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma. Það var raunveruleg ástæða fyrir því að þetta var fellt út úr lagatexta fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Rétt til að rúlla í gegnum hvað við raunverulega vorum að samþykkja og hvernig nefndarálit meiri hlutans í sjávarútvegsnefnd leit út og hvernig hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála, Einar K. Guðfinnsson, sem þá var óbreyttur þingmaður, skrifar undir það álit sem einn af meirihlutamönnum í sjávarútvegsnefnd. Í því nefndaráliti sem ég er að vitna til segir, með leyfi forseta:

„Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þá leggur meiri hlutinn til að lögin falli úr gildi 1. október 2005 í stað 1. júlí til að tryggt sé að nægilegur tími gefist til að ljúka uppgjöri sjóðsins.“

Einn af höfundum þessa texta og einn af þeim sem undir þetta skrifa er hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra. Þrátt fyrir þessa samþykkt Alþingis, þrátt fyrir að allir nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd kæmust að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gera þetta með þessum hætti, þrátt fyrir að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi þá er lagt hér fram frumvarp sem segir við skulum bara gefa þessu vink. Það var ætlun hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að þetta fé færi til Hafrannsóknastofnunar, það skal til Hafrannsóknastofnunar og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra er hér í hlutverki vikadrengsins, liggur mér við að segja, gengur erinda fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nú er fjármálaráðherra við að fylgja þessu máli alveg til enda að þeim fjármunum sem þróunarsjóðurinn átti og höfðu myndast þar skuli ráðstafað einmitt eins og sá hæstv. ráðherra lagði til á sínum tíma.

Ég verð að segja eins og er að ég er hissa á þessu, undrandi, og ég geri mér alveg grein fyrir því sem hæstv. ráðherra sagði hér að auðvitað er fjárveitingavaldið samkvæmt lögum hjá Alþingi og með því að fjármunirnir renni í ríkissjóð geta þingmenn í sjálfu sér haft áhrif á það með einhverjum hætti hvernig þeim verður ráðstafað, þ.e. ef það væri í rauninni svo að fjárveitingavaldið lægi hjá Alþingi. Ætla þingmenn sem setið hafa á Alþingi í mörg ár að standa hér undir drengskaparheiti og segja að fjárveitingavaldið sé óskorað hjá Alþingi?

Eftir að hafa setið tvö ár í fjárlaganefnd geri ég mér alveg grein fyrir hverjir ráða því hvert fjármunir ríkisins fara. Það eru ekki almennir þingmenn, það er framkvæmdarvaldið, það eru ráðherrarnir, þeir ráða því. Og meðan til er hópur þingmanna sem styður ríkisstjórnina og er nánast eins og strengjabrúður að rétta upp hönd í þessum sal þá ræður ríkisstjórnin, þá ráða ráðherrarnir. Þessir hæstv. ráðherrar eru ekki vanir því að þingnefndir eða Alþingi setji mikið ofan í við þá um það sem þeir eru að gera. Því var ekki mikil ánægja með það að þessu skyldi breytt á sínum tíma og að þessir fjármunir sem áttu að renna til Hafrannsóknastofnunar skyldu ekki vera eyrnamerktir þangað heldur ættu allir geta sótt um þá á jafnréttisgrundvelli. Og við sjáum það hér að ráðherraræðið sættir sig ekkert við að þingið hafi skoðun á því hvað gera skuli við þá fjármuni sem koma úr þróunarsjóðnum.

Frú forseti. Það er vont mál að við skulum standa hér í janúar á árinu 2006, eftir þá umræðu sem við tókum á vorþinginu 2005, með frumvarp í höndunum sem í raun er skellt beint í andlitið á þingmönnum sem samþykktu allt annað á vorþinginu. Ég veit ekki af hverju þetta er komið hér. Hæstv. ráðherra getur vonandi útskýrt það fyrir mér og öðrum þingmönnum sem sátu með honum í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja til breytingu á þeim lagatexta sem fyrir þinginu lá. Það hefur ekkert breyst í umhverfinu, það hefur ekkert breyst í því að upphæðin sem kemur úr þróunarsjóði er bara svipuð og við áttum von á, eins og fram kemur í þingskjölum frá þessum tíma. Við fórum yfir það hér í ræðupúlti að hún gæti orðið um 600 milljónir og jafnvel meira. Það hefur því ekkert breyst annað en það að hæstv. ráðherra er ekki lengur óbreyttur þingmaður heldur sjávarútvegsráðherra og hlýtur að hafa breytt um skoðun í ljósi þess frumvarps sem hér er lagt fram fyrir okkur til umræðu og afgreiðslu.

Ég neita að trúa því að hv. stjórnarþingmenn sem sátu í sjávarútvegsnefnd á þessum tíma og tóku þátt í umræðunni og þessari afgreiðslu, séu svo miklar lyddur að þeir láti þetta yfir sig ganga og samþykki frumvarpið með þessum hætti heldur taki sér einu sinni tak og standi í hælana þegar ráðherra fer að ýta á bakið á þeim. Er ekki kominn tími til? Ég held að þetta mál sé gott til þess að ákveðnir þingmenn og a.m.k. sá hópur þingmanna sem er í sjávarútvegsnefnd og vildi ekki samþykkja það sem ráðherrann lagði fyrir þá, sýni að þeir séu ekki á flótta og séu ekki lyddur og ætli sér að standa við þá prinsippákvörðun sem við tókum í sjávarútvegsnefnd að nú skyldum við nota tækifærið, nú skyldum við nota möguleikann, þarna væru fjármunir sem greinin ætti sjálf og nú skyldum við opna fyrir það að aðrir en vísindamenn Hafró kæmust að þessum rannsóknum og gætu fengið til þess alvörufjármuni til að ráðast í alvörurannsóknarverkefni.

Menn gerðu sér alveg grein fyrir að með því að fjármunirnir væru þetta miklir væri von til þess að menn sameinuðust um stór verkefni utan Hafrannsóknastofnunar. Það er ekkert óeðlilegt við það að við viljum sjá einhverja aðra koma að og skoða þetta og opna upp vísindaumhverfið í kringum lífríki sjávar vegna þess að árangurinn hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir hingað til. Við höfum ekki verið ýkja ánægð í þessum sal þegar við höfum rætt það hvernig til hefur tekist í fiskvernd. Við höfum velt fyrir okkur hvers vegna ekki gangi betur að byggja upp fiskstofna eins og þorskstofninn en raun ber vitni. Við því höfum við ekki fengið nein einhlít svör hjá vísindamönnum Hafró. Hefði það ekki verið fagnaðarefni ef vísindamenn utan þeirrar stofnunar hefðu getað sótt í þessa fjármuni, lagt fram raunveruleg verkefni og kannski viljað skoða þetta frá einhverju öðru sjónarhorni en vísindamennirnir sem búnir eru að sitja yfir þessu í mörg ár hjá Hafrannsóknastofnun og eru sífellt að verja sínar eigin tillögur, sífellt að verja sínar eigin athuganir og sínar eigin niðurstöður? Ég held að það hefði verið gott og hollt fyrir okkur öll. Með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er verið að girða fyrir það. Það fer enginn af stað fyrir 25 millj. kr. eins og hér er verið að eyrnamerkja af rausn af 700 milljónum. Það fer enginn af stað eftir þau skilaboð hæstv. ráðherra úr ræðustól áðan að að sjálfsögðu þurfi aðrir rannsóknaraðilar að koma með fjármuni á móti, þannig að ef þeir ætli að láta sér detta í hug að sækja um fjármuni í þennan sjóð, í þær stórkostlegu 25 milljónir sem lagðar eru til hliðar, verði þeir að gera sér grein fyrir að þeir þurfi að koma með a.m.k. aðrar 25 og helst 50 milljónir. Ekki býr Hafrannsóknastofnun við það. Ekki þarf hún að koma með fjármuni einhvers staðar frá á móti þeim 650 eða 660 milljónum sem hér er verið að leggja til hliðar til að færa þeirri stofnun í rannsóknir.

Frú forseti. Ég er, eins og heyrist á máli mínu, meira en bit yfir því frumvarpi sem hér er komið fram. Ég vona satt að segja að það sé byggt á einhverjum misskilningi, að það sé ekki einbeitt ætlun hæstv. ráðherra að taka þessa fjármuni úr þeim farvegi sem Alþingi var búið að setja þá í og færa þá undir fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nú er hæstv. fjármálaráðherra.