132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:42]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Með frumvarpi því sem hér er til umræðu er verið að ráðstafa fé úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Fé þetta kemur í framhaldi af því að Þróunarsjóður sjávarútvegsins varð lagður af 1. október sl. en gildistími laganna um Þróunarsjóð átti að vera til 31. desember 2009. Stjórn Þróunarsjóðsins hefur þá selt eignir sjóðsins og greitt upp skuldir hans. Áætlað er að hrein eign sjóðsins sé um 689 millj. kr. Hér er um mjög háa upphæð að ræða og skynsamlegt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur til að það fjármagn sem kom frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins í Verkefnasjóð sjávarútvegsins renni í ríkissjóð. Í staðinn mun Hafrannsóknastofnun fá í viðbótarrannsóknafé 50 millj. kr. á þessu ári og aðrar 50 millj. kr. árið 2007. Við erum að tala varanlega um 100 milljónir á ári í hafrannsóknir. Við sem höfum verið í sjávarútvegsumræðu á Alþingi höfum oft tekist á um að viðbótarfé vanti til hafrannsókna. Ég tel því tillögu hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessu frumvarpi mjög skynsamlega.

Eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið og ber að fagna er einnig gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins verði breytt þannig að á árinu 2006 muni að minnsta kosti 25 millj. kr. af því fé sem verkefnasjóðurinn hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrk til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknarverkefnanna.

Frú forseti. Með þessari tilhögun vinnst tvennt. Annars vegar verða hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar auknar í kjölfar hærri fjárveitinga og hins vegar gefst öðrum aðilum sem starfa utan Hafrannsóknastofnunar færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir en sá hópur hefur haft takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa.

Hafrannsóknir eru grunnurinn að því að byggja upp þekkingu um hafið og lífríki þess sérstaklega til að geta metið hvernig hagkvæmast er og skynsamlegast að nýta auðlindir hafsins. Það er mikilvægt að fá varanlegt viðbótarfjármagn til enn frekari hafrannsókna. Í greinargerð sem sjávarútvegsnefnd sendi til fjárlaganefndar vegna fjárlaga ársins 2006 stendur, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að í meðförum Alþingis verði Hafrannsóknastofnuninni veitt 50 millj. kr. framlag svo auka megi úthald rannsóknarskipa stofnunarinnar um samtals 87–97 daga á ári. Nauðsynlegt er að úthald skipanna verði aukið svo efla megi veiðarfærarannsóknir og rannsóknir á uppsjávarfiski. Á síðasta ári var úthald Árna Friðrikssonar 211 dagar og úthald Bjarna Sæmundssonar 176 dagar. Á yfirstandandi ári er úthald áætlað 180 dagar á Árna (þar af 15 dagar vegna leigu til erlendra aðila) og 203 dagar á Bjarna (þar af 33 dagar vegna leigu til erlendra aðila). Meðalkostnaður á dag við rekstur Árna er 1.150 þús. kr. og Bjarna 900 þús. kr. Tillaga nefndarinnar er byggð á því að úthald skipanna verði 235–240 dagar fyrir hvort skip. Samkvæmt útreikningum Hafrannsóknastofnunarinnar kostar hver viðbótardagur vegna fjölgunar úthaldsdaga um 55–60 á Árna 650–700 þús. kr. og fjölgunar úthaldsdaga um 32–37 á Bjarna 500–550 þús. kr.“

Nefndarmenn minni hluta skrifuðu undir með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér er lagt fram er í samræmi við óskir sjávarútvegsnefndar og nefndarálits sem sent var til fjárlaganefndar. En hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir gott betur. Sjávarútvegsnefnd bað um 50 milljónir í viðbótarfjárveitingu til að auka úthald rannsóknarskipa Hafrannsóknastofnunar um rúma 90 daga á ári en varanlega koma til Hafrannsóknastofnunar um 100 milljónir á ári frá árinu 2007 og er það mikið fagnaðarefni, frú forseti.