132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:45]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ósköp vel að erfitt sé fyrir hæstv. ráðherra að standa hér og verja þetta frumvarp eins og það er lagt fram. Það getur ekki verið auðvelt eftir umræðuna sem fram fór um þróunarsjóðinn í sjávarútvegsnefnd á vordögum síðasta árs og maður hlýtur að velta því fyrir sér þegar maður hlustar á varnir sem hæstv. ráðherra hefur hér uppi gagnvart því að nú skuli eiga að umsnúa þeirri ákvörðun sem tekin var á vordögum 2005, hvort það geti verið að einfaldlega hafi verði búið að semja frumvarpið í ráðuneytinu þegar hæstv. ráðherra kom þar inn. Ég velti fyrir mér hver eða hverjir sömdu það frumvarp sem við erum nú með í höndum. Getur verið að það séu þeir sömu aðilar og sömdu frumvarpið sem við breyttum hérna síðasta vor, þeir séu einfaldlega ekki búnir að sætta sig við þá breytingu eins og ég kom inn á í ræðu minni? Þetta frumvarp var lagt fram 29. nóvember en 1. október tók hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra við í sjávarútvegsráðuneytinu. Það hvarflar því að manni hvort það geti verið að þetta hafi einfaldlega legið þar á borðum og verið sé að fara með það hér inn.

Við erum sammála um að auka þurfi hafrannsóknir, ekki þarf að deila um það, ég held að allir séu sammála um það. Grunnrannsóknir Hafró eru fjármagnaðar af fjárlögum og við eigum að geta, miðað við það góðæri sem ríkir, fjármagnað þær rannsóknir svo sómi sé að. Sjávarútvegsnefnd og Alþingi ætlaði sér síðastliðið vor að opna myndarlega fyrir það að aðrir aðilar gætu sótt um opinbert fé til að stunda hafrannsóknir. Það var gert með breytingunni sem gerð var á frumvarpinu og alveg óþarfi finnst mér fyrir ráðherra að verða eitthvað sár yfir því þó að bent sé á að hér sé um kúvendingu að ræða og auðvitað veltir maður fyrir sér: Hvernig stendur á þeirri kúvendingu?