132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:53]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru nú hálfdylgjulegar tilgátur hjá hv. þingmanni í lokin. Það sem vakir fyrir þeim sem flytur frumvarpið er einfaldlega tvennt. Annars vegar að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Það er gert með þeim hætti að það er pólitísk niðurstaða ríkisstjórnarinnar að auka varanlega fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar um 100 milljónir á ári. Það er 10% hækkun á framlögum ríkissjóðs til Hafrannsóknastofnunar. Það er talsverð aukning. Það er það sem í fyrsta lagi vakir fyrir.

Í annan stað er verið að reyna að búa til leið til að opna samkeppni á þessu vísindasviði. Það er gert með því að þegar búið er að auka fjárhagslegt rými Hafrannsóknastofnunar skapast möguleikar til að opna á samkeppni um fjármagn sem núna rennur í Verkefnasjóð sjávarútvegsins eftir tekjustofnum sem hv. þingmenn þekkja. Það er alveg ljóst mál að menn nota auðvitað ekki peninga eins og þá sem fást úr þróunarsjóðnum nema bara einu sinni. Þetta er höfuðstóll og það gengur á hann og það mundi ganga á hann auðvitað í verkefnasjóðnum. Einn góðan veðurdag væru þeir peningar búnir.

Þess vegna var það mitt pólitíska mat, og ég er sannfærður um að það er rétt, að það var miklu betra fyrir þá hagsmuni sem ég var að berjast fyrir, sem voru hagsmunirnir af því að auka hafrannsóknir í landinu, að gera það með þessum hætti. Það voru engar annarlega hvatir að baki. Það voru engar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun. Það var bara þessi vilji minn sem hefur komið fram hundrað sinnum um að efla hafrannsóknir og efla Hafrannsóknastofnun vegna þess að ég taldi að það væri svo mikilvægt í þágu þeirra hagsmuna sem ég held við allir hv. þingmenn berum fyrir brjósti.