132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og margsinnis hefur komið fram á þessu þingi er ég áhugamaður um rannsóknir og ég er áhugamaður um að það sé samstaða um að styrkja góða námsmenn til að verða sér úti um mikla þekkingu. Ég tel þess vegna að ein besta leiðin til að framleiða nýja þekkingu sé að ýta undir þá sem eru í rannsóknarnámi, bæði þá sem vilja verða meistarar í tilteknum fræðasviðum eða verða sér úti um doktorsgráðu. Ég tel og hef lýst því hér margsinnis yfir að koma eigi upp styrkjakerfi til þess að laða fólk í langt nám.

Ég hef hlustað grannt eftir stefnu og yfirlýsingum hæstv. menntamálaráðherra um þetta mál. Nú á ég stundum töluvert erfitt með að átta mig nákvæmlega á því hvað hæstv. ráðherra vill gera og ég sé stundum þverstæður á milli þess sem hún segir á einum tíma frá öðrum. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir á síðasta sumri að hún vildi gjarnan til þess að efla tengsl við alþjóðlega vísindasamfélagið laða hingað til lands erlenda doktorsnema og ég tek undir það meginmarkmið hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra sagði í blaðagrein í Morgunblaðinu á liðnu sumri að það vildi hún gera með því að taka upp styrki til erlendra doktorsnema á sviðum þar sem við skörum fram úr. Þetta er í sjálfu sér jákvætt markmið.

Auðvitað má segja að það skjóti skökku við að á sama tíma og hæstv. ráðherra virðist hafa það mjög ofarlega í sinni að láta einmitt doktorsnema íslenska og meistaraprófsnema borga skólagjöld umfram aðra þá skuli hún velta fyrir sér styrkjum til erlendra doktorsnema. En það er í góðu lagi.

Það sem mig langar hins vegar til að velta upp við hæstv. ráðherra er: Hvenær ætlar hún að taka upp þessa styrki til erlendu doktorsnemanna? Í öðru lagi: Hvernig ætlar hún að skilgreina þau svið þar sem við skörum fram úr? Það mætti halda því fram að það ætti ekki síður að verja fé til að laða hingað erlend úrvalsefni til þess að starfa að greinum þar sem við skörum ekki fram úr vegna þess að okkur skortir þá þekkingu þar og atgervi. Því spyr ég hæstv. ráðherra líka hvaða mælikvarða hún hyggst nota til að skilgreina þessi svið og sömuleiðis hvort það standist jafnræðisreglu að veita slíka styrki einungis til ákveðinna fræðasviða en ekki annarra.

Síðan eru mér hugleikin kjör íslenskra doktorsnema erlendis. Í dag geta þeir ekki fengið styrki til að nema við erlenda háskóla nema það sé meðleiðbeinandi með aðsetur á Íslandi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ef hún ætlar að taka upp styrki með þessum hætti til erlendra doktorsnema verður hún þá ekki að fella niður allar hömlur á styrkjum til (Forseti hringir.) íslenskra doktorsnema við erlenda háskóla?