132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. doktor Össur Skarphéðinsson, með leyfi forseta:

„Hvenær hyggst ráðherra taka upp styrki til erlendra doktorsnema á sviðum þar sem Íslendingar skara fram úr, eins og hann hefur boðað?“

Í núgildandi reglum um starfsemi Rannsóknarnámssjóðs sem veitir stuðning fyrir hönd stjórnvalda við nemendur í framhaldsnámi er ekki gert sérstaklega ráð fyrir stuðningi við erlenda nemendur sem hingað sækja. Endurskoðun reglna um Rannsóknarnámssjóð fer nú fram í menntamálaráðuneytinu og ég hef ákveðið að endurskoðun á hlutverki sjóðsins verði hluti af stefnumótun Vísinda- og tækniráðs til þriggja ára fyrir árin 2007–2009. Breytt viðhorf sem skapast hafa m.a. með eflingu rannsókna hér á landi og aukinni þátttöku í erlendu vísindasamstarfi eru eitt þeirra atriða sem hafa munu áhrif á starfsemi Rannsóknarnámssjóðs að endurskoðun lokinni. Hvort sú endurskoðun leiðir til þess að teknir verða upp sérstakir styrkir til erlendra doktorsnema á eftir að koma í ljós. Stefna stjórnvalda fram að þessu hefur verið að styrkja íslenska doktorsnema sem stunda nám í háskólum á Íslandi eða í háskólum erlendis. Með sama hætti hafa þeir erlendu doktorsnemar sem stunda nám í íslenskum háskólum haft með sér styrk og stuðning frá sínu heimalandi. Þegar styrkir eru veittir til doktorsnáms byggist valið á almennri gæðaviðmiðun svo sem frammistöðu nemenda í náminu, vísindagildi verkefnisins og hæfni leiðbeinenda þannig að þessi mál er sérstaklega verið að skoða við þessa endurskoðun og einnig athugasemdir hv. þingmanns sem ég að mörgu leyti deili eins og komið hefur fram í blaðagrein .

Í öðru lagi er spurt, með leyfi forseta:

„Hvaða mælikvarða hyggst hann nota til að skilgreina þau svið?“

Í þeim rannsóknasjóðum sem veita stuðning fyrir hönd stjórnvalda til rannsóknarverkefna og/eða framhaldsnáms er gengið út frá almennri viðmiðun um faglegt mat á gæðum verkefna. Til dæmis eru styrkir rannsóknasjóðs veittir til skilgreindra rannsóknarverkefna, einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Sjóðurinn veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Í reglum sjóðsins segir að ákvörðun um styrkveitingu sé bundin hinu faglega mati.

Þegar stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir um að veita styrki til verkefna á skilgreindum rannsóknarsviðum hefur það verið gert með tímabundnum markáætlunum. Til dæmis var ný markáætlun samþykkt árið 2004 af ríkisstjórn til þriggja ára. Annars vegar er um að ræða svið, erfðafræði í þágu heilbrigðis, eins og það nefnist, þar sem Íslendingar ráða yfir hlutfallslega mikilli þekkingu og ættu að geta náð miklum árangri með því sameiginlega átaki opinberra aðila og einkaaðila sem gert er ráð fyrir í þessum þætti áætlunarinnar. Hins vegar, og ég vek athygli hv. þingmanns á þessu, er um að ræða nýtt þekkingarsvið, örtækni, þar sem þekkingargrunnurinn hér á landi er enn hlutfallslega veikur en miklar vonir eru bundnar við alþjóðlega og mikil þörf er á að styrkja hér á landi.

Í þriðja lagi er spurt, með leyfi forseta:

„Stenst það jafnræðisreglu að veita slíka styrki einungis til ákveðinna fræðasviða en ekki annarra?“

Eins og ég sagði í svari mínu hér á undan og fram kemur í lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir er gert ráð fyrir því að rannsóknasjóður veiti styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs. Leiði þær áherslur til þess að styrkveitingar renni til ákveðinna fræðasviða umfram önnur þá fæ ég ekki séð að það geti brotið gegn jafnræðisreglu enda er þá fylgt ákveðinni stefnumörkun sem lögin sjálf gera ráð fyrir. Á móti kemur að þegar sótt er um í rannsókna- og vísindasjóði á Íslandi, hvort sem um ræðir til markáætlana eða í almenna vísindasjóði, eru allir umsækjendur jafnsettir á þann veg að ákvörðun um styrki byggir á faglegu mati á gæðum verkefna.

Í fjórða lagi er spurt, með leyfi forseta:

„Telur ráðherra ekki að jafnframt verði að taka upp styrki til íslenskra doktorsefna við erlenda háskóla?“

Rannsóknasjóður hefur veitt styrki til doktorsefna til náms við erlenda háskóla. Með auknu framboði doktorsnáms við íslenska háskóla hefur hlutur þeirra sem stunda nám hér heima vaxið á kostnað þeirra sem stunda nám erlendis. Ef nám er stundað erlendis er gerð krafa um tengsl við Ísland. Auk erlends leiðbeinanda við þá stofnun sem nám er stundað þarf að vera leiðbeinandi hér á landi. Þegar þessi regla var sett var haft í huga að það er mikilvægt að rannsóknir doktorsefna sem starfa undir handleiðslu færustu vísindamanna við erlendar menntastofnanir komi Íslandi að gagni í einum eða öðrum skilningi. Hlutur samkeppnissjóðanna í stuðningi við doktorsnám bæði hér á landi og erlendis er nú þegar umtalsverður og stefnt er að því að efla hann á næstu árum.