132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra veitti mér hérna áðan ákaflega merkilegt svar. Í sumar sagði hæstv. menntamálaráðherra að hún hygðist taka upp styrki til erlendra doktorsefna. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að það er ekkert á döfinni. Það er einhver vinna að því máli í ráðuneytinu einhvers staðar en það bólar ekkert á því. Það sem hún sagði í sumar var sem sagt bara til að segja það á þeim tíma.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það ætti að taka þetta upp á þeim sviðum þar sem Íslendingar skara fram úr. Ég spurði hæstv. ráðherra hvernig ætti að meta það. Nú kemur það auðvitað fram að innan ráðuneytisins er það stefna, eins og í vísindasamfélagi sem eðlilegt er, að veita styrki á grundvelli faglegra forsendna eftir gæðum verkefna og auðvitað á það að vera þannig. Það er ekki hægt að taka eitt svið fram úr og segja að það skari fram úr öðrum. Ég held að það sé ákaflega erfitt að gera slíkt. Það er alltaf hægt að finna rök fyrir því að innan sérhverrar fræðigreinar sé hægt að finna einhverja sérþekkingu sem réttlæti að menn kalli hana framúrskarandi. Þannig er það einfaldlega. Þess vegna er ég sammála því almenna viðmiði sem kemur fram í þeim reglum vísindasamfélagsins sem hæstv. ráðherra reifaði áðan, þ.e. að það á að gerast á grundvelli almennra viðmiða og faglegra forsendna. Þannig á það að vera.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli að fá fólk til doktorsnáms vegna þess að þar verður þekking til, mikil þekking heima og erlendis. Ég er því þeirrar skoðunar að ekki eigi að setja neinar sérstakar hömlur á það með hvaða hætti Íslendingar sem eru í doktorsnámi erlendis fái styrki eins og er í dag. Þetta er mín skoðun, frú forseti.