132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:25]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa fyrirspurn upp því hún er mjög mikilvæg. Það eru margar vísbendingar um að auglýsingum sé í auknum mæli beint gagnvart börnum.

Ég hef sem þingmaður tekið umræðu um þetta mál á hinu háa Alþingi og beint máli mínu bæði til hæstv. menntamálaráðherra og viðskiptaráðherra. Ég hef spurt hæstv. viðskiptaráðherra hvort hún ætli að setja reglugerð um auglýsingar gagnvart börnum sem byggir á heimild í 30. gr. samkeppnislaga en fengið þau svör að það hafi ekki staðið til og ég var ekki sátt við þau svör.

Hæstv. menntamálaráðherra hef ég spurt hvort hún hafi hug á að setja leiðbeinandi reglur um dreifingu auglýsinga í grunnskólum og ætlar hæstv. ráðherra að taka málið upp við skólastjórnendur. En ég tel að mun skýrari skilaboð þurfi að koma frá stjórnvöldum um að virða helgi barna og setja takmarkanir á þunga auglýsinga gagnvart þeim. Þess vegna tel ég mjög brýnt að taka þetta mál upp á þeim vettvangi sem Alþingi er og jafnframt innan ráðuneytanna. Við erum að verða vitni að svo mikilli ásókn í börn í auglýsingum að það er ástæða til að taka í taumana.