132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fjármálafræðsla í skólum.

322. mál
[12:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir svörin. Hér voru fagrar lýsingar á markmiðum og hvað eigi að gera. Lífsleikni er nefnd hér sérstaklega. Ég hafði samband við Flensborgarskóla og þar eru kenndir 8–10 tímar um fjármál. Það getur verið jarðfræðikennari eða dönskukennari sem kennir lífsleikni. Jú, það koma stundum einhverjir frá fjármálastofnunum til að aðstoða. Ekkert er kennt í Flensborg um vanskil, ábyrgðir eða hættu á fjárnámum. Námsefnið er samið af kennurunum sjálfum, ekkert hefur komið frá ráðuneytinu.

Samþykkt var þingsályktun, þskj. 909, fyrir nokkrum árum frá Rannveigu Guðmundsdóttur sem ég ætla að fá að lesa hér upp, frú forseti:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.

Markmið fjármálafræðslunnar verði:

1. að taka til meðferðar sem flest er viðkemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,

2. að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:

a. að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,

b. að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,

c. að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.“

Því miður, frú forseti, er það yfirleitt svo að frumkvæðið að þessu kemur frá einstökum kennurum, eða eins og frá sýslumanninum á Ólafsfirði að koma þar inn í lífsleiknitíma og kenna. Þetta er ekki skipulega gert og því hefur ráðuneytið algerlega brugðist hvað varðar samþykkt þessarar þingsályktunar.