132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:57]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það svo að hvorki við þingmenn né ráðherra geta hlutast til um dagskrána í Ríkisútvarpinu. En mér finnst hins vegar mjög eðlilegt að þingmenn nýti sér þetta form til að spyrja spurninga. Það er misjafnt hvar áhugasviðið liggur og hér höfum við haft frekar frjálslegt form á því hvað þingmenn geta leyft sér að spyrja um og ræða. Mér finnst það mjög eðlilegt í lýðræðislegu samfélagi. Ég geri því alls enga athugasemd við það þó hér sé spurt um hvort Ríkisútvarpið ætli að taka aftur upp útsendingar á þættinum Auðlind. Það getur vel verið að þingmaðurinn vilji ná einhverju ákveðnu fram með þeirri fyrirspurn og umræðu um málið, ég held að það hafi tekist. Mér heyrist að allir hér sakni þáttarins og ég get stimplað mig inn í þann hóp. Þátturinn Auðlind var mjög skemmtilegur þáttur og maður saknar þess virkilega að fá ekki að heyra svona góða yfirferð yfir sjávarútvegsmál, sem eru svo mikilvæg í samfélagi okkar, eins og maður fékk þegar þátturinn Auðlind var á dagskrá.