132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvenær má búast við að undirbúningi og hönnun nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum ljúki?“

Svar mitt er byggt á upplýsingum frá Vegagerðinni og er þannig:

Athuganir standa yfir á brúarstæði á hringvegi á Jökulsá á Fjöllum. Gert er ráð fyrir því að val brúarstæðis liggi fyrir innan tíðar. Eftir það er unnt að hefja verkhönnun sem gæti lokið fyrri hluta ársins 2007. Til skoðunar væru tvær veglínur. Í fyrsta lagi er veglína um þúsund metrum neðan við núverandi brú. Gert er ráð fyrir að vegagerðarkostnaður við þessa leið verði um 140 millj. kr. og að hún stytti hringveginn um 420 metra. Áætlað er að þarna yrði gerð 208 metra stálbogabrú með upptengdri akbraut. Fyrstu áætlanir um kostnað, en þær eru gerðar með fyrirvara um að enn eru fjölmörg atriði óljós varðandi aðstæður, hljóða upp á um 670 millj. kr.

Í öðru lagi er um að ræða veglínu um 600 metrum ofan við núverandi brú. Við þessa leið er vegagerðarkostnaður áætlaður um 75 millj. kr. og stytting hringvegarins um 1,1 km. Áætlað er að þarna yrðu annaðhvort gerðar tvær 120 metra langar eftirspenntar brýr hvor sínum megin við eiði í ánni eða að gerð yrði 230 metra löng steypt eftirspennt brú í vestari hluta farvegsins.

Fyrstu áætlanir um kostnað hljóða upp á 525 millj. kr. fyrir tvær 120 metra langar brýr og um 470 millj. kr. fyrir eina 230 metra langa brú en allar þessar tölur eru að sjálfsögðu gefnar með fyrirvara um að enn eru fjölmörg atriði óljós varðandi aðstæður. Kostnaður samkvæmt þessum áætlunum fyrir seinni veglínu — auk þess sem stytting hringvegarins er einnig meiri við þá leið.Vegur á seinni veglínunni er einnig talinn vera auðveldari í byggingu og viðhaldi. Þá hefur verið á það bent að líkur bendi til að brú á þeim stað, 600 metrum fyrir ofan núverandi veglínu, kunni að standa betur í hamfaraflóði þar sem vatn mun eiga greiðari leið úr farvegi sínum við þær aðstæður. Það er alveg ljóst að endurbygging brúar yfir Jökulsá á Fjöllum er mikilvægt verkefni sem við þurfum að takast á við. Brúin ber núna allan venjulegan þunga en þegar einhver yfirþungi er á ferð þarf að fara aðra leið, sem hv. þingmenn þekkja, það þarf því að huga að endurbyggingu þessarar brúar auk endurbóta á veginum sem liggur að henni. Þar að auki er brúin einbreið og er þess vegna eitt af þeim brúarmannvirkjum sem þarf að huga að út frá öryggissjónarhorni. En stærðirnar í kostnaði eru þær sem ég greindi frá áðan og ég tel að við endurskoðun á samgönguáætluninni, sem nú er unnið að, sé eðlilegt að taka til við skoðun á þessu verkefni og í því ljósi er unnið að umræddum athugunum af hálfu Vegagerðarinnar.