132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er deginum ljósara að það er ekki ásættanlegt að við getum ekki flutt það sem þarf að flytja um vegakerfið, um hringveginn. Hvað varðar brúna yfir Jökulsá þá koma fyrst og fremst upp vandamál þegar flytja þarf mjög breiðan farm, sem er breiðari en svo að hann komist um brúna miklu. Breiddin skiptir fremur máli en að þunginn sé svo mikill að brúin þoli ekki fargið. Í slíkum tilvikum leysa menn vandann með því að fara á vaði en að öðru leyti er brúin í ágætu standi. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á því og undirstrika það sérstaklega.

Hvað varðar framkvæmdir þarf auðvitað að fjalla um þær í samgönguáætlun og varðandi vegagerð á þessu svæði þá hef ég marglýst því yfir að vegur að Dettifossi er mikilvæg framkvæmd líkt og er á öðrum sambærilegum svæðum svo sem í þjóðgörðum. Ég fagna því að fleiri hafi sama skilning á því og ég.