132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

292. mál
[13:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega svari hæstv. ráðherra. Ég hef þá skilið það rétt, að það verða, ef við samþykkjum þetta frumvarp, komin núllmörk í lögin. Strax og menn eru undir áhrifum fíkniefna teljast þeir ekki í ökuhæfu ástandi. Það þarf ekki lækni til að meta það eða alla þá vitleysu sem hefur verið í gangi hingað til í sambandi við það. Ég vil því fagna þessu sérstaklega.

Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, að það verður ódýrara að fara í gegnum rannsóknir af þessu tagi með samþykkt frumvarpsins. Ég vil hins vegar benda á að til er enn ein aðferð sem gæti gert þetta enn þá ódýrara. Það eru þessir strimlar sem hægt er að setja á ennið og kallast, skilst mér, „drug wipe“ og mæla fjórar tegundir vímuefna, þ.e. kannabis, amfetamín, kókaín og enn eitt efni í viðbót. En þessi þrjú efni eru langalgengust þeirra sem hér er neytt ólöglega.

Mér skilst að þessir strimlar kosti um 2.000 kr. stykkið. Manni finnst það eiginlega ótrúleg tækni, að hægt sé að komast að því hvaða efni eru í líkama fólks með því að skella strimli á ennið á því. Manni fyndist hálfskrýtið ef lögreglan mundi gera það en þetta er nútíminn. Þannig er tæknin og auðvitað eigum við að nýta okkur hana.

Ég vil nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra, af því að málið er að fara í þinglega meðferð og einungis minnst á munnvatnssýni, að byggja undir lögin svo að hægt verði að taka munnvatnssýni úr ökumönnum sem liggja undir grun: Væri hægt að bæta inn í þetta frumvarp heimild til að nota þessa strimla? Mér sýnist það mjög þægileg leið, 2.000 kr. stykkið af strimli. Lögreglan getur haft þá hjá sér í boxi og nýtt strimlana. Í framhaldinu mætti síðan leita í blóðinu nákvæmlega að efninu sem kemur út á strimlinum. Þá þyrfti ekki að leita að hinum efnunum. Væntanlega yrði það miklu ódýrara.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu mjög. Fyrirspurn mín gekk út á þessi núllmörk og eftir að hún var lögð fram kom frumvarp í þinginu, með núllmörkum. Ég fagna þessu.