132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:40]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessu máli. Hér er, eins og komið hefur fram, um mikilsverð umhverfissjónarmið að ræða líka og ég fagna auðvitað þeim áhuga og þeirri ábyrgð sem vélhjólafélögin innan ÍSÍ hafa sýnt og þeirri samvinnu sem þau eiga við Umferðarstofu.

Það er líka rétt að leggja áherslu á að svæðum verði fjölgað þar sem hægt er að keyra á þessum torfæruhjólum. Ég veit að við Akureyri er slíkt svæði sem er vel nýtt. Ég fagna líka svörum hæstv. samgönguráðherra um að þetta sé allt á leiðinn og ég vona að við þurfum ekki að bíða lengi eftir því að það komi skýrar reglur, rýmkaðar reglur að einhverju leyti en þó sérstaklega að ekki verði hvikað frá því að akstur utan vega á þessum hjólum sé óheimill.