132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:44]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er vonandi að fenginni reynslu sem hv. þingmaður spyr hvort samgönguráðuneytið sé tilbúið til að hafa forustu um þetta mál. Það er í góðum höndum þar, tel ég. En ég svara því játandi að samgönguráðuneytið er tilbúið til þess að láta fara mjög ítarlega yfir þetta mál. Okkur hefur auðvitað verið kunnugt um það sem gert hefur verið hjá Umferðarstofu. Mitt fólk í ráðuneytinu hefur hins vegar fyrst og fremst horft til þeirra reglna sem þurfa að gilda um akstur slíkra tækja og öryggissjónarmiðanna.

Þarna er auðsjáanlega að mörgu að hyggja. Ég tel að það væri af hinu góða og í þágu þessarar íþróttar að málið yrði tekið föstum tökum og leitað samstarfs annarra ráðuneyta til að leysa þau vandamál sem þarna kunna að vera á ferðinni. Mér sýnist satt að segja að þau séu ekki neitt risavaxin og ætti að vera hægt að finna leiðir í góðu samstarfi við þá sem eru í forustu fyrir þessum hópi og ég er reiðubúinn til að gera það.