132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:55]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Starfsemi SÁÁ er geysilega mikilvæg. Allir sem lesa ársskýrslur þeirra sjá hve hún er umfangsmikil. Það er alveg ljóst að það starf sem fer fram hjá SÁÁ undir forustu Þórarins Tyrfingssonar og hans fólks hefur komið geysilega mörgum fjölskyldum til góða í þessu samfélagi. Þessi starfsemi er í fremstu röð þó maður horfi til heimsins alls. Það skal sérstaklega dregið hér fram.

Það kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni að hann beitti sér fyrir gerð þjónustusamninga á sínum tíma við SÁÁ. Það var mikið framfaraspor. Það var auðvitað ómögulegt þegar við vorum að lenda í því hér haust eftir haust að SÁÁ eins og fleiri þurftu að fara í mikla baráttu til að ná eyrum þingmanna og ráðherra við fjárlagagerð. Það að hafa þjónustusamning er því mjög gott form og þakka ber hæstv. ráðherra það framsýna skref sem hann tók á sínum tíma þegar þessir samningar hófust. Ég er sannfærð um að hann mun standa sig vel í því að endurnýja þennan samning. Við höfum ekkert að óttast í því sambandi því hann ber mikið skynbragð á þessa starfsemi.