132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:57]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Það skal enginn draga úr mikilvægi starfsemi SÁÁ eins og hefur komið fram í máli þingmanna sem hér hafa talað. En mig langar líka að vekja máls á því að þó að þjónustusamningurinn sé runninn út þá er það auðvitað ekki svo að enginn rammi sé um starfsemina. Unnið er að sjálfsögðu eftir þeim samningi sem rann út um áramótin. En það dregur auðvitað ekki úr mikilvægi þess að samið sé sem fyrst og komið á nýjum samningi.

Af því að hér var komið inn á einstaka meðferðarþætti þá hefur líka verið tekið á ópíummeðferðinni, en það er eitt af þeim atriðum væntanlega sem ég geri ráð fyrir að verði gengið frá í nýjum samningi. Eins og aðrir hvet ég ráðherrann og ráðuneytið til að ganga í þetta mikilvæga verk og ég heyrði það í máli hans hér áðan að það ætlar hann svo sannarlega að gera.