132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessari stuttu umræðu. Ég held að hún sýni hæstv. heilbrigðisráðherra að það er ríkur áhugi á því í þinginu að þessu máli verði lokið fljótt og vel og ég hvet hann til að gera það og leita þeirra fjárheimilda sem hann kann að þurfa í því sambandi til þessarar mikilvægu starfsemi. Það var vissulega framfaraskref að gera þjónustusamning við SÁÁ á sínum tíma og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir þann vanda sem ég ræði úr fjárlaganefndinni.

En það verður ekki kallað neitt annað en lausung og reiðuleysi í ríkisrekstrinum að ráðuneyti láti þjónustusamninga renna út og hafi ekki í gildi gilda samninga um mikilvæga samfélagsþjónustu. Það er ástæða til að taka það fram að heilbrigðisráðuneytið er ekkert verra ráðuneyti í þessu efni en önnur. Þetta eru einfaldlega vinnubrögð sem við virðumst þola og sætta okkur við og láta óátalin. Ég held að við eigum að taka okkur saman um það sem komum að fjárreiðum ríkisins, hvort heldur það er í fjárlaganefnd eða hjá framkvæmdarvaldinu, ráðherrunum, að taka á slíku reiðuleysi, á þessari lausung og auka festu og aðhald með því að ganga eftir því að samningar séu gerðir í tíma, að tekið sé á rekstrarvanda í tíma og að gerðar séu áætlanir þannig að fjárlög sem við leggjum síðan fram á hverju hausti eigi möguleika á því að standast en séu ekki eins og nú er, (Forseti hringir.) óljósir spádómar um útgjöld næsta árs því að enn á svo fjölmargt eftir að koma inn þegar þau (Forseti hringir.) eru afgreidd.