132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[14:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar málefnalegu umræður um þetta mál og ég vil undirstrika að ég hef fullan skilning á málefnum SÁÁ og þeirri mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Við hv. þingmann Helga Hjörvar vil ég segja að þegar við erum að segja reynslusögur úr fjárlaganefnd þá held ég að þjónustusamningarnir séu ekki mesta vandamálið í ríkisrekstrinum. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu þá er unnið eftir fyrri þjónustusamningi og það kann alltaf að verða svo í samningum að þeir séu ekki allir búnir um leið og fjárlög eru afgreidd bara eins og venjulegir kjarasamningar. En það er auðvitað markmiðið að hafa sem allra mesta reiðu á þessu og til þess var þessi samningur tekinn upp.

Það er rétt að það er mikil þörf fyrir þessa starfsemi og hún hefur vaxið mikið á undanförnum árum og einnig fjárframlög til hennar. Á tímabilinu 1999–2005 hafa fjárheimildirnar vaxið um 77,7% meðan verðbólgan hefur verið 28,7. Það er ekki þar fyrir að það er heilmikil þörf. En ég hef mikinn áhuga á því hvort t.d. væri hægt að efla göngudeildarstarfsemina í þessum geira og efla þannig aðgengi að meðferðinni. En ég undirstrika að það er mjög gott starf unnið hjá SÁÁ og það þarf að sjá því starfi farborða til framtíðar og ég heyri að þingheimur hefur mjög mikinn áhuga á því.