132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.

425. mál
[14:09]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á upplýsingum og upplýsingaskyldu varðandi laun og starfslokasamninga. Ástæðan er m.a., eins og kom fram í máli þingmannsins, þau ofurlaun og þeir ofurstarfslokasamningar sem eru farnir að tíðkast í þjóðfélaginu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að fyrirtæki borgar manneskju 130 millj. eftir 5 mánaða starf? Orðið fíflagangur dugar ekki einu sinni hérna. En á hverjum bitnar þetta? Að sjálfsögðu bitnar þetta á almenningi í hærri kostnaði, í þessu tilfelli í hærri flugfargjöldum. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þetta í hug? Það er bráðnauðsynlegt að menn setji hér skýrar reglur um upplýsingaskyldu til að koma í veg fyrir slík ofurlaun sem m.a. leiða til gífurlegrar misskiptingar í þjóðfélaginu.