132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Vinnsla skógarafurða.

278. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra svörin og þann vilja sem hann lýsir í orðum sínum, í stuðningi við áframhaldandi þróun og stuðningi við bæði skógrækt og nytjar úr Héraðsskógum og skógum landsins. En fyrsta grisjun nytjaskóganna hefur átt sér stað — það tekur 30 ár að hlúa að trjám frá útplöntun til fyrstu grisjunar — og fyrstu afurðir hafa verið notaðar bæði í girðingarstaura og fiskihjalla. En þetta er upphafið að mikilli grisjun, eins og ég sagði áðan, og upp úr 2018 mun mjög mikið af trjám falla til. Ég tel að á þeim árum sem fram undan eru eigi að stórefla bæði rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði. Það er tilvalið að nota héraðið þar sem skógræktin er hvað mest, Skógrækt ríkisins og nýstofnað háskólasetur á Austurlandi til að taka þátt í þessu þróunarverkefni.

Viðarnýtingarnefndin hefur skilað af sér ef ég skil það rétt. Ég tel mjög brýnt að taka þá upp tillögur hennar og sjá til þess að fjármagn fylgi. Hætt er við að hver vísi á annan, að vísað verði á Impru eða atvinnuþróunarfélögin. Ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra yrði maður að meiri ef hann tæki þessi mál meira í sínar hendur og gerði þessi mál að sínum þannig að hann héldi utan um þá þróun sem fram undan þarf að vera.