132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Eignarskattur og eldri borgarar.

453. mál
[14:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég er ánægður með að hv. þm. Jón Kr. Óskarsson skuli ekkert síður hugsa um tekjuskattinn. Það er vel því að við sjálfstæðismenn og samstarfsmenn okkar í ríkisstjórn, framsóknarmenn, viljum gera það líka og höfum verið að sýna það í verki á undanförnum árum.

Ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um, að persónuafslátturinn fylgdi ekki verðlagi, eins og ég held að hann hafi orðað það. Mér sýnist hann einmitt hafa gert það núna síðustu árin að minnsta kosti. Það er hins vegar rétt hjá honum að hann hefur ekki alltaf gert það, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Það var fyrst tekið úr sambandi — skipt hefur verið um forseta, ég hélt kannski að fyrrverandi forseti gæti minnt mig á það því hún var held ég í þeirri ríkisstjórn, þá voru forverar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn og fjármálaráðherrann var úr einum af þeim flokkum sem eru forverar Samfylkingarinnar — ári eftir að skattkerfið eins og það er í dag var tekið upp, en þá var vísitölutenging á persónuafslættinum. Ári eftir að það var tekið upp var það fyrir forgöngu ríkisstjórnar sem forverar Samfylkingarinnar áttu aðild að — og fjármálaráðherrann var úr flokki forvera Samfylkingarinnar — sem það var tekið úr sambandi. Þessu hefur verið breytt eins og vitum og hvernig hækkanir hafa verið lögfestar á persónuafslætti á undanförnum árum og þannig fylgt verðlagi. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju er verið að blanda þessu inn í umræðuna og hvaða keilur menn ætla að slá með því en verið gæti að það kæmi í ljós síðar. Ég veit ekki hvað gerist.