132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Lögreglulög.

46. mál
[15:19]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum. Flutningsmaður er hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson.

Eins og hefur komið fram í umræðunni í dag er þetta afar þarft mál og m.a. hefur komið beiðni frá Ungmennafélagi Íslands um að þetta verði tekið fyrir og nái fram að ganga. Það er auðvitað miður að það hafi ekki tekist því eins og flutningsmaður greindi frá er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann flytur þetta mál og vonandi að það tefjist nú ekki enn eina ferðina í nefnd.

Það hefur einnig komið fram að dómsmálaráðherra skipaði starfshóp til að fara yfir gildandi lög og að sá starfshópur hafi skilað ráðherra skýrslu um störfin. Það eru að verða fjögur ár síðan. Í skýrslunni kemur fram að reglur um skemmtanir og skemmtanaleyfi byggist á ótraustum lagagrundvelli og umboðsmaður Alþingis hafi oftar en einu sinni gert athugasemdir við gildandi fyrirkomulag. Það er bent á að nauðsynlegt sé að setja skýrari lagaramma á þessu sviði. Það er þess vegna frekar óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert nú þegar.

Það hefur einnig komið fram í dag, hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki verið viðstaddur þessar umræður. Reyndar hefur enginn þingmaður stjórnarliða tekið þátt í þeim og ekki sést hér í þingsal. Er það nokkuð athyglisvert. Ég ætla nú samt ekki að fara að ætla þeim að þeim finnist ekki mikilvægt að málið nái fram að ganga. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þær umsagnir sem bárust um frumvarpið þegar það var lagt fram á síðasta þingi hafi verið jákvæðar en að vissar efasemdir hafi komið upp um að rétt væri að fella 2. mgr. brott. Það er þess vegna virðingarvert að tekið hefur verið tillit til þessara athugasemda í frumvarpinu þegar það er endurflutt og ekki er lengur gert ráð fyrir að 2. mgr. 34. gr. sé felld á brott.

Þingmenn hafa gert ágætlega grein fyrir þessu máli hér og á skemmtilegan hátt, t.d. var sagt frá áhuga hæstv. dómsmálaráðherra á sérsveit lögreglunnar. En ég vona að þetta mál nái fram að ganga en dagi ekki uppi í nefnd eins og raunin hefur verið hér áður.