132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Lögreglulög.

46. mál
[15:31]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er greinilegt að þetta mál á mikinn stuðning, a.m.k. hjá stjórnarandstöðunni. En ég hef nú samt trú á að ýmsir í stjórnarliðinu gætu vel hugsað sér að styðja þetta mál ef þeir væru ekki þrælbundnir af framkvæmdarvaldinu, af sérvisku hæstv. dómsmálaráðherra að vilja endilega rukka íþróttafélög sem eru staðsett úti á landsbyggðinni sérstaklega og umfram önnur íþróttafélög. Þetta brýtur allt jafnræði og réttlætiskennd fólks. Ég er viss um að margir í stjórnarliðinu eru ekki orðnir svo forhertir að þeir sjái ekki að þetta er sanngirnismál og gætu vel hugsað sér að styðja það. En þeir eru greinilega svo hræddir eða svo bundnir af fyrirskipunum frá framkvæmdarvaldinu að þeir láta ekki einu sinni skoðun sína í ljós og eru ekki hérna í salnum. Mér finnst þá setja niður við það. En það kom fram hér hjá hv. þm. Hlyni Hallssyni að enginn stjórnarliði væri í salnum og það var mjög þörf ábending.

Eins kom fram mjög þörf ábending og athyglisverð hjá hv. þm. Valdimari Leó Friðrikssyni þar sem hann benti á að það væri verið að rukka unglingalandsmót sem væru haldin um verslunarmannahelgi og hefðu þannig ákveðið forvarnagildi. Börn á viðkvæmum aldri væru þá upptekin við íþróttastarf og leik og minni hætta væri á að þau væru á ýmsum öðrum mótum þar sem menn eru uppteknir við eitt og annað sem kannski ætti að bíða betri tíma. En þá kemur ríkisvaldið með reikninga og skattleggur þessi mót, sem eru ákveðin forvarnamót, sérstaklega. Þetta er mjög skrýtið og ábendingin frá hv. þingmanni var mjög þörf.

Við höfum flutt þetta mál þrjú ár í röð en alltaf er hæstv. dómsmálaráðherra upptekinn við annað. En samt sem áður gefur hann sér alltaf tíma til að senda reikninga til íþróttafélaganna úti á landi. Það er óneitanlega mjög sérstakt. Það er mikill missir að því að hafa hann ekki til svara eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á. Auðvitað á hann að svara fyrir verk sín og útskýra fyrir íþróttafélögunum á landsbyggðinni hvers vegna hann sendir þeim reikning en ekki öðrum.

Eins má velta fyrir sér fjarveru ýmissa stjórnarþingmanna, t.d. framsóknarmannanna sem komu hér og börðu sér á brjóst með frumvarpi sem átti að rétta hlut íþróttafélaganna á landsbyggðinni, svo sem eins og ÍBV vegna ferðakostnaðar. Að vísu var nú ekki mikil meining á bak við það frumvarp. Þetta var svona sýndarfrumvarp. Það kom í ljós þegar Vinstri grænir ákváðu að reyna nú að setja einhvern pening í fjárlögin svo að hægt væri að uppfylla þessa ósk stjórnarþingmannanna um að styðja við íþróttafélögin. En þá vildu þeir það ekki. Þá greiddu sömu þingmenn atkvæði á móti því að peningar færu í að styrkja ferðalög íþróttafélaganna þó svo þeir flyttu mál sama efnis. Síðan er flutt mál þess efnis að eyrnamerkja fjármuni í það sem þeir óskuðu sér þá vildu þeir það ekki. Þetta skilur náttúrlega enginn og sviptir auðvitað hulunni af vitleysunni. Fyrir þessu stóð m.a. landsbyggðarþingmaður eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Ég hefði nú talið að hún hefði átt að láta sjá sig hér í salnum og segja sína skoðun, hvort henni fyndist það réttmætt að skattleggja t.d. ÍBV sérstaklega um margar milljónir á hverju ári.

Við verðum líka að velta fyrir okkur jafnræðinu. Landsbyggðin stendur höllum fæti. Það hefur komið margoft fram. Ég ætla ekki að rekja það. Það er m.a. út af sjávarútvegsstefnu kvótaflokkanna og eitt og annað þess efnis, sem við höfum oft farið yfir. Ef íþróttamót eru haldin á landsbyggðinni er sendur reikningur. En sambærileg mót, eins og landsleikir í knattspyrnu þar sem miklu fleiri áhorfendur eru og viðbúnaður örugglega meiri, ekki heyrir maður af því að þá séu sendir reikningar frá hæstv. dómsmálaráðherra. Það er ekki. Þetta særir réttlætiskennd fólks.

Við getum einnig nefnt ÍBV og þann reikning sem hæstv. dómsmálaráðherra sendir íþróttafélaginu þar á hverju ári vegna þjóðhátíðar og síðan þá hátíð sem fram fer hér á hverju sumri, og ég tók nú þátt í, menningarnótt, ágætis hátíð. Ekki þarf minni viðbúnað á menningarnótt en á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta er ekkert sanngjarnt. Þessu á að breyta. Ég hef trú á því að hæstv. dómsmálaráðherra sjái að sér. Hann hefur séð að sér áður. Við munum eftir því að þegar hann sá að hann var að gera rangt hvað varðaði að setja fjölmiðlalög þá var stokkið til á miðju sumri og þau dregin til baka. Eins með fullnustu refsinga. Hann kom með mál sem var hér flækt inn í þingið. Þannig að það er aldrei að vita nema að hæstv. dómsmálaráðherra sjái nú að sér og maður verður að vona það. (Gripið fram í.) Já, hann gerði það.

En það sem er kannski slæmt pólitískt séð við þetta mál fyrir hæstv. dómsmálaráðherra, og þess vegna skora ég á hann að hleypa þessu máli í gegn, er það að verið er að breyta skipan lögreglumála. Þetta er einmitt eitt mál þar sem hallar verulega á landsbyggðina. Margir úti á landi óttast, einmitt vegna fyrri verka hæstv. dómsmálaráðherra hvað það varðar að skattleggja íþróttafélögin, að sú breyting geti orðið til þess að dregið verði úr þjónustu á landsbyggðinni. Þetta er ekki gott og þetta er ósanngjarnt mál sem ég vonast svo sannarlega til að hæstv. dómsmálaráðherra breyti. Þetta er ekki sanngjarnt. Hann hefur sýnt það áður, svo sem þegar hann sá að sér hvað varðar fjölmiðlalögin og fleiri mál, að hann getur breytt rétt. Ég vona svo sannarlega að þetta mál verði að lögum og menn hætti að leggja íþróttafélög á landsbyggðinni í einelti, frú forseti.