132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í vetur hafa margsinnis orðið umræður um hið svokallaða fangaflug og þá hafa íslensk stjórnvöld vísað til þess að málið er í rannsókn hjá Evrópuráðinu og hafa sagt að þau mundu taka fullan þátt í þeirri rannsókn. Nú hefur komið skýrsla fram í Evrópuráðinu af hálfu þingmannsins Dick Marty og hún sýnir það svart á hvítu að hann telur að hér hafi verið um töluvert umfangsmikið fangaflug að ræða á síðustu árum. Hann bendir sérstaklega á að CIA hefur haft sérstaka heimild bandarískra stjórnvalda til að stunda slíkt flug síðan árið 2001. Hann telur að 100 einstaklingar hafi verið fluttir með ólöglegum hætti til og frá stöðum í Evrópu. Dick Marty bendir sérstaklega á að í yfirlýsingunni sem Condoleezza Rice gaf 5. desember, og íslensk stjórnvöld hafa oft vísað til, hafi hún í rauninni ekki þvertekið fyrir neitt nema að pyndingar hafi átt sér stað en hún hafi ekki fortakslaust hafnað því að fangaflug hafi átt sér stað. Dick Marty, öldungardeildarþingmaðurinn svissneski, sem hefur rannsakað þetta fyrir Evrópuráðið, slær því föstu að ríkisstjórnir Evrópu hafi vitað af þessu en að vísu slær hann þann varnagla, hann segir a.m.k. leyniþjónustan. Ég vil taka það alveg skýrt fram að ég tek það gott og gilt þegar hæstv. ríkisstjórn segist ekki hafa haft neina vitneskju um þetta. En ég tel að það sé nauðsynlegt að gengið sé betur eftir þessu og hef óskað skriflegra skýrra svara af hálfu forsætisráðherra. Mig langar að spyrja hvort hann hyggist gera það. Mig langar einnig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hvort þeir hafi haft einhver tengsl við bandaríska ráðamenn, forseta eða utanríkisráðherra þar sem fram hefur komið af þeirra hálfu fortakslaus neitun á því að þetta hafi átt sér stað að því er Ísland varðar.