132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta mál er alveg skýrt. Íslensk stjórnvöld tóku málið upp við bandarísk stjórnvöld. Það var gert af utanríkisráðuneytinu á sínum tíma. Það var gengið eftir því. Svör komu frá bandaríska utanríkisráðherranum þar sem hún fullyrti að ekkert ólöglegt fangaflug hefði átt sér stað og engin ólög fangelsi. Það liggja engar sannanir fyrir því.

Nú hefur þessi ágæti umræddi þingmaður gefið út bráðabirgðaskýrslu þar sem hann telur að ólíklegt sé að ríkisstjórnir, eða a.m.k. njósnaþjónustur eins og hann orðar það, hafi ekki vitað af þessu. Það liggur alveg ljóst fyrir að við höfum enga vitneskju um það og ég spyr þá hv. þingmann: Um hvað eigum við að spyrja bandarísk stjórnvöld á þessu stigi? Það má vel vera að ástæða verði til að spyrja bandarísk stjórnvöld um málið þegar skýrslan kemur út. Eigum við að spyrja bandarísk stjórnvöld um hvort þau hafi verið að segja ósatt? Mundi hv. þingmaður gera það ef hann gegndi embætti utanríkisráðherra landsins?

Það er ekkert nýtt í þessu máli. Íslensk stjórnvöld hafa tekið málið upp, utanríkisráðherra hefur átt fund með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns, um málið og gengið eftir því. Það er því ekkert nýtt í málinu sem krefst svara á þessu stigi. Við munum að sjálfsögðu taka þátt í þessari athugun á vegum Evrópuráðsins og þegar sú skýrsla kemur út má vel vera að ástæða verði til að spyrja frekari spurninga. En ég held að rétt sé að bíða þangað til. Það er ekkert nýtt í málinu, hv. þingmaður, og algerlega ástæðulaust að vera að taka það hér upp.