132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:41]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér er nær að halda að íslensk stjórnvöld kunni ekki að spyrja réttu spurninganna í þessu máli. Þau hafa sjálf ekki gert neina úttekt á því hvaða erindi flugvélarnar sem hingað hafa komið, lent og tekið aftur á loft, hafa átt. Að sögn fylgjast menn í utanríkisráðuneytinu með fréttum af því hvaðan þessar flugvélar koma og hvert þær eru að fara, flugvélar sem vitað er að eru starfræktar af leppfyrirtækjum bandarísku leyniþjónustunnar. Það liggur alveg fyrir, frú forseti. En á því hafa íslensk stjórnvöld ekki mikinn áhuga.

Hér er mikið talað um að ekki hafi átt sér stað neitt ólöglegt. Það kann að vera rétt. Hins vegar stendur hnífurinn þar í kúnni vegna þess að skilgreining Bandaríkjastjórnar á því hvað er löglegt og ólöglegt í þessum efnum er gjörólík því sem viðgengst samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðasamningum. Bandaríkjamenn hafa endurskilgreint pyndingar og reyndar hryðjuverk líka. Þeir hafa endurskilgreint pyndingar og telja það t.d. ekki til pyndinga að halda plastfilmu fyrir vitum manns og hella á hann vatni þangað til hann er um það bil að drukkna eða hann heldur það. Þetta eru ekki pyndingar samkvæmt bandarískum skilgreiningum. Þess vegna þurfum við að vita hvert þessar flugvélar fóru og hvað tók við þegar þeim hafði verið lent. Segjum að fangarnir hafi verið fluttir með löglegum hætti, hvað tók við þegar flugvélum hafði verið lent og þessir fangar teknir til einhvers konar meðferðar, mundi Bandaríkjastjórn líklega segja, hjá verktökum í erlendum löndum þegar búið er að úthýsa pyndingunum og endurskilgreina hvað það er sem á sér stað, þá telst það varla lengur til pyndinga að reyna að drekkja föngum.