132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:45]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Tuttugu og fimm flugvélar á vegum skúffufyrirtækja CIA hafa margoft lent hér á undanförnum árum. Vélar félaganna hafa einnig komið við í Afganistan og í Guantanamo. Leiðin er Guantanamo – Reykjavík – Afganistan. Síðan koma hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra og halda því enn statt og stöðugt fram að engar sannanir séu fyrir hendi, þetta séu sögusagnir og óstaðfestar heimildir.

Í umræðunum hefur komið fram að svissneski þingmaðurinn Dick Marty fullyrðir að allt bendi til þess að lokaáfangastaðirnir séu leynifangelsi þar sem fangarnir séu m.a. pyndaðir og svo er hér verið að vitna í hefðir í vestrænum lýðræðisríkjum. Gera menn sér ekki grein fyrir því að þetta eru fangar sem sitja inni án dóms og laga og eru pyndaðir, sem sitja þarna inni árum saman? Hvað gera Íslendingar? Sitja hjá og bíða, ætla bara að bíða. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn eru að nota Ísland í ólöglegum tilgangi og það er ekki í fyrsta skipti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að við hefðum engar sannanir fyrir þessum málum og hvort við ættum að spyrja að því hvort Bandaríkjamenn væru að segja ósatt. Það er reyndar þannig, frú forseti, að það væri ekki í fyrsta skipti sem bandarísk stjórnvöld ljúga opinberlega. Þannig er það.