132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að engin ástæða sé til að taka fangaflutningana upp á Alþingi Íslendinga. Um alla Evrópu ræða menn alvarleg mannréttindabrot af hálfu Bandaríkjamanna, á evrópskri grund og evrópskri lofthelgi. En hæstv. forsætisráðherra segir að engin ástæða sé til að ræða það á þjóðþingi okkar, í lýðræðisríki sem hefur haft mannréttindi í hávegum. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra og segir að við höfum gert alveg jafnmikið og hin Evrópuríkin þó hann viti að ítalski saksóknarinn hefur þegar stefnt bandarískum leyniþjónustumönnum, þó hann viti að réttarfarsrannsókn fer fram í Þýskalandi, þó hann viti að spænskur dómstóll rannsakar fangaflug á Spáni, þó hann viti að Svíar hafa falið flugmálayfirvöldum þar rannsókn og þó hann viti að bráðabirgðaskýrsla sem kynnt var í Evrópuráðinu segir að svör Bandaríkjamanna séu ekki skýr um þetta atriði. Við hljótum að krefjast þess að það sé gengið eftir skýrum svörum Bandaríkjamanna, ella fari hér fram sjálfstæð rannsókn á vegum íslenskra yfirvalda til að svara þeim spurningum sem íslensk stjórnvöld þurfa að svara hjá Evrópuráðinu.

Það er auðvitað ekki annað en undirlægjuháttur, virðulegur forseti, við Bandaríkjamenn að lýsa því yfir að það séu sögusagnir, ill meðferð á föngum á vegum Bandaríkjastjórnar. Allur heimurinn veit, þó ekki væri nema af því að fylgjast með hinum skelfilegu aðstæðum í Guantanamo á Kúbu og þeirri illu meðferð sem þar fer fram, að ill meðferð á sér svo sannarlega stað á vegum Bandaríkjastjórnar. Því miður eru rökstuddar grunsemdir um að hér hafi lofthelgi Íslands og íslenskt land verið notað til að flytja fólk í og úr þessari meðferð. Við verðum að tala skýrt um að það verður aldrei þolað.