132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:54]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Rétt er að ítreka að endanleg skýrsla Evrópuráðsins liggur ekki fyrir og frestur til að svara fyrirspurnum frá Evrópuráðinu sjálfu er til 21. febrúar. Ég vara menn hins vegar mjög við því að hrapa að niðurstöðum með þeim hætti sem komið hefur fram í umræðunni eða fullyrða á þann hátt sem gert hefur verið í umræðunni að Ísland og íslenskt yfirráðasvæði hafi verið notað í ólögmætum tilgangi til að flytja fanga eða koma þeim á áfangastað til pyndinga. (ÖS: Það liggur nú fyrir. Við vissum bara ekki af því.) Hv. þingmaður virðist vita meira en margur annar og skora ég þá hér með á hann að leggja fram þann vitnisburð og þær sannanir sem hann greinilega þykist hafa í því máli. Ég skora á hann að færa sönnur á þessar fullyrðingar og standa fyrir máli sínu. (ÖS: Ætlarðu þá að gera eitthvað?) Ég skora á hann að standa við stóru orðin í þessu máli að á Íslandi hafi farið um fangar sem ætlunin hafi verið að pynda með ólögmætum hætti. Ég hef margsagt það í ræðustól á þessu þingi: Íslensk stjórnvöld fordæma ólöglega meðferð á föngum eða pyndingar á föngum. Það gera allar vestrænar siðaðar þjóðir. Það gerir Bandaríkjaþing og Bandaríkjastjórn. (Gripið fram í: Hvað með Guantanamo?)

Hins vegar vil ég líka árétta að íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að allar þjóðir fari að alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindasáttmálum og þeim lögum sem um þessi mál gilda hjá öllum siðuðum þjóðum. Þarf að taka það fram, hv. þingmenn?