132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ástandið er í dag lagalega eru ekki miklar líkur á að orkufyrirtækin fari yfirleitt í rannsóknir. Hv. þingmaður veit að með þessu frumvarpi er verið að bregðast við því. Með samþykkt þessa frumvarps skapast einungis bráðabirgðaástand. Hins vegar veit hv. þingmaður líka að fjallað verður um það í sérstakri nefnd, sem ég mun skipa strax og lögin hafa verið samþykkt, hvernig við viljum haga þessum málum til framtíðar.

Vissulega koma þar upp mjög stór mál og áleitnar spurningar og því tel ég mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst. Þá getum við farið að vinna að þeim mikilvægu hagsmunamálum sem þarf að fjalla um í nefndinni. Undirbúningur undir það nefndarstarf er þegar hafinn, sérfræðingar eru að vinna verk sem kemur nefndinni að góðu.