132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:08]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu ánægjulega umræðuefni, því að þetta umræðuefni er auðvitað um árangur hagkerfisins og um ávinning þjóðarinnar á undanförnum árum. Sannarlega hafa skattar lækkað (Gripið fram í: Hækkað.) og ef við tökum viðmið í árinu 1994 og tökum nokkur raunveruleg dæmi má öllum vera það ljóst.

Hjón með tvö börn undir sjö ára aldri, annað er á vinnumarkaði og með 240 þús. kr. tekjur, greiddu árið 1994 22,5% af tekjum sínum í beina skatta. Þau greiða núna á árinu 2006 0,8% og á árinu 2007, þegar skattalækkanirnar eru allar gengnar í gildi, verða skattarnir 1% í mínus.

Hjón með tvö börn undir sjö ára aldri þar sem bæði eru á vinnumarkaðnum og með 240 þús. kr. tekjur greiddu 1994 31,9% í skatta en núna á árinu 2006 18,4% og á árinu 2007 munu þau greiða 15,2% í skatta.

Einstætt foreldri með tvö börn undir sjö ára aldri og 240 þús. kr. tekjur greiddi árið 1994 23% í skatta, greiðir árið 2006 8% og mun greiða árið 2007 4,1%.

Einstaklingur með 240 þús. kr. tekjur greiddi árið 1994 31,9%, greiðir árið 2006 23,2% og mun greiða 21% á árinu 2007.

Einstætt foreldri með tvö börn undir sjö ára aldri og 120 þús. kr. tekjur greiddi árið 1994 í skatta mínus 15,5%, árið 2006 mínus 26% og mun á árinu 2007 greiða mínus 30,8%. (KLM: Hvernig greiðir maður mínus?) Það gerist þannig, af því að hv. þingmaður var sveitarstjórnarmaður, það gerist m.a. þannig að ríkið greiðir útsvarið fyrir þig.

Nú skulum við taka annað dæmi með annarri nálgun um hjón með tvö börn og núna annað undir sjö ára aldri og ein fyrirvinna sem var með í tekjur árið 1994 175 þús. kr. Sú fjölskylda greiddi 10,8% í skatta árið 1994. Árið 2007, miðað við launavísitölu, yrði þessi fjölskylda með 250 þús. kr. tekjur, launin hafa hækkað miðað við launavísitölu, og þá mun þessi fjölskylda greiða mínus 1,8% í beina skatta á sama hátt. (Gripið fram í.)

Það hefur verið talað heilmikið um að persónuafsláttur og skattleysismörk, sem auðvitað skipta mestu máli í þessu samhengi, hafi ekki fylgt verðlagi. Það er að hluta til rétt því að árið 1989, þegar forverar Samfylkingarinnar voru í ríkisstjórn og formaður forvera Samfylkingarinnar var fjármálaráðherra og hv. málshefjandi var í ríkisstjórn, þá var persónuafslátturinn aftengdur frá verðlagi. Síðan hefur þetta verið á ýmsan hátt. En frá árinu 2000 hefur persónuafslátturinn fylgt almennum kjarasamningum og í meginatriðum fylgt verðlagi.

Ef við skoðum hver skattleysismörkin árið 1994 væru á föstu verðlagi 2006, þá væru þau 83,858 kr. Árið 2007 verða þessi skattleysismörk 84,302 kr. og er þá meðtalinn skyldulífeyrisfrádráttur sem nú er frádráttarbær frá skatti en var það ekki 1994. Ef við tökum svo árið 2006 þá eru þessi skattleysismörk 84,600 kr. og þá tökum við með bæði skyldu- og valkvæðan lífeyrisfrádrátt. Umræðan um stöðu og þróun skattleysismarka er því í meginatriðum byggð á sandi.

Ef við skoðum síðan skatttekjur ríkisins þá er það rétt að skatttekjur ríkisins hafa aukist á undanförnum árum. En skatttekjur ríkisins sem meðaltal af landsframleiðslu frá 1990 fram til dagsins í dag voru að meðaltali 28,7%, verða á þessu ári 28,8% og fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að þær verði 27,8%.

Frú forseti. Því eru tvær spurningar sem málshefjandi og aðrir verða að svara: Eigum við að leggja af stighækkandi tekjuskatt? Átti ríkisstjórnin ekki að borga skuldir um leið og hún lækkaði skattana eða átti hún að lækka skattana meira?